139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er að verða dálítið aulalegt að allir séu að vitna í hvað Lee Buchheit hafi sagt. Þetta er eins og krakkar sem þekkja einhvern eldri strák og allir segja: Nei, Jonni sagði þetta eða Jonni sagði hitt. Við erum þingmenn, við eigum að geta tekið afstöðu til máls út frá stærð þess en ekki að vísa alltaf í einhvern einn mann.

Ég skal hins vegar viðurkenna að í þetta skiptið byrjaði ég með því að vísa í manninn. Við getum samt ekki látið allar umræður snúast um hvaða skoðun einhver Konni frændi hafi haft.

Það er hins vegar rétt sem ég sagði áðan að það er vel hægt að fletta því upp hver afstaða Buchheits er til dómsmáls ef menn vilja byggja mat sitt fyrst og fremst á því.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði um afstöðuna. Ég skil ekki það grín heldur vegna þess að ég fylgdist með samskiptum hans og hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar áðan þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson reyndi hvað eftir annað að útskýra afstöðu sína og alltaf kom hæstv. utanríkisráðherra upp og sagðist ekkert vita hver afstaðan væri.

Hvað varðar ræðu mína hins vegar kann að vera að hæstv. utanríkisráðherra hafi tekið eftir því að ég náði ekki alveg að klára hana. Það eru nokkrar blaðsíður eftir þannig að það verður framhald á morgun. Ég veit ekki hvort ég er að skemma þá miklu spennu sem virðist vera hjá hæstv. forsætisráðherra ef ég upplýsi strax um lok (Gripið fram í: Utanríkisráðherra.) — hæstv. enn þá utanríkisráðherra, verðandi hugsanlegum hæstv. forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ég veit ekki hvort ég á að upplýsa um lokapunktinn í þessari ræðu en held reyndar að hann sé búinn að koma fram. Fyrst hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki náð honum enn, hvorki hjá mér né hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, leyfi ég honum bara að bíða til morguns og njóta spennunnar.