139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður geti ekki talað með þeim hætti um málið að ef ekki verði gerður samningur eins og sá sem hér liggur fyrir verði af því enginn kostnaður fyrir íslenskan almenning eða íslensk fyrirtæki. Auðvitað verður kostnaður af þessu ömurlega máli, hvort sem samið er eða ekki. Það er síðan umdeilanlegt og auðvitað ýmsu háð hversu mikill hann gæti orðið ef ekki er samið. Auðvitað gæti það orðið gríðarlega mikill kostnaður. Það er einfaldlega þetta hagsmunamat sem ég talaði um áðan sem þingmenn þurfa að leggja. Það ræðst þá kannski sumpart af því hversu mikla áhættu þeir eru tilbúnir til að taka.

Ég held að við getum að hluta til horft á málið með þeim hætti að það er nauðsynlegt fyrir okkur að leysa það til að ná efnahagslegri endurreisn, trúverðugleika og aðgangi að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og það er betri leið með þeim samningi sem nú liggur fyrir en að semja ekki. Um leið og það er vissulega súrt í broti að þurfa að axla þetta skulum við líka muna að hrakspárnar sem uppi voru um afkomuna í þessu máli fyrr á kjörtímabilinu hafa nú sannarlega ekki gengið eftir. Endurheimturnar hafa reynst vera miklu betri. Að ýmsu leyti hefur okkur gengið betur. Við skulum t.d. muna að við þurfum sem betur fer ekki eins og margar aðrar þjóðir að verja gríðarlegum fjármunum til öryggismála, þjóðaröryggismála, hernaðar og annarra slíkra hluta til að tryggja sig í samfélagi þjóðanna. Við búum við margvísleg forréttindi (Forseti hringir.) sem að hluta til koma á móti hinum erfiðu og þungu höggum sem við höfum orðið fyrir. Við skulum ekki gleyma okkur í svartnættinu.