139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

nýr Icesave-samningur.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra nefndi þessa tölu, 100 milljarða kostnaðarmun á nýja og gamla Icesave-samningnum, og var reyndar leiðrétt utan úr sal af nýjum félaga ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, [Hlátur í þingsal.] sem benti á að talan væri 432 milljarðar. Getur hæstv. forsætisráðherra útskýrt út frá samningnum sem hæstv. forsætisráðherra segist hafa lesið hvernig hún fær út þessa tölu, 100 milljarða, hvernig hún lækkar töluna 432, sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á, niður í 100?

Svo vil ég gjarnan líka spyrja hæstv. forsætisráðherra um annað fyrst ráðherrann hefur kynnt sér málið svona ítarlega: Ef kemur á daginn að þetta reynist algert klúður, mun þá hæstv. forsætisráðherra taka ábyrgð á því? Ég er viss um að þeir sem eru á móti því að fallast á þennan samning munu taka ábyrgð á afleiðingum þess. En mun hæstv. forsætisráðherra taka ábyrgð á afstöðu sinni eða mun hún vísa á (Forseti hringir.) undirmenn sína þegar þar að kemur?