139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

styrkir frá ESB.

[10:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er valt að trúa öllu því sem stendur í fjölmiðlum en í þessu tilviki er rétt hjá hv. þingmanni að það er að komast mynd á það hvernig á að afla þessara styrkja og nota þá. Það má segja að þeir séu tvenns konar, annars vegar eru TAIEX-styrkir, sem eru að vísu partur af hinum síðarnefnda flokki, IPA-styrkjunum. TAIEX-styrkirnir eru fyrst og fremst hugsaðir til að afla sérfræðiþekkingar, bæði heima og erlendis, til að undirbúa samningana. Það má kannski segja að það sé sá hópur og flokkur styrkja sem búið er að ganga almennilega frá. Þeir eru í fullum gangi. Hér er verið að halda ráðstefnur með erlendum fræðimönnum eins og hv. þingmaður veit og ráðherrar úr báðum flokkum hafa jafnvel verið frummælendur á þeim ágætu ráðstefnum.

Að því er varðar hins vegar IPA-styrkina þá er verið að leggja lokahönd á fyrirkomulag þeirra og verður sennilega slegið í gadda á næstu vikum. Ekki er þó búið að taka endanlega ákvörðun um hvaða verkefni það verða sem kunna að falla þar undir. Þó má segja að ljóst sé að einn flokkur styrkja sem varðar t.d. túlkun og þýðingar sé að ganga til framkvæmda enda enginn ágreiningur um það af hálfu þingsins. Sérstök fyrirmæli eru um það í nefndaráliti utanríkismálanefndar að fullkomlega eðlilegt sé að leita liðsinnis í þeim efnum. En Evrópusambandið á t.d. eftir að ganga frá því fyrir sína parta hvers eðlis þau verkefni eru sem væru styrkhæf og þar á móti eiga íslensk stjórnvöld líka eftir að ákveða fyrir sitt leyti hvaða verkefni og hvers konar þau leggja þar fram.