139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

styrkir frá ESB.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið þó að ég sé kannski ekki mjög miklu nær um stöðu þessara mála. Ég vildi gjarnan spyrja hann aftur: Hvaða afstaða liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar í sambandi við hvaða styrki verður sótt um, hverjir sækja um styrkina, hverjir koma til með að úthluta þeim eða ráðstafa og hvernig samspil samninganefndar og einstakra ráðuneyta verður í því sambandi? Ef ég tek mark á því sem ég hef séð í fjölmiðlum virðist þar gert ráð fyrir veigameira hlutverki samninganefndar í þessu sambandi en títt er um aðildarumsóknarlönd. Ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin sé með því að fela samninganefnd en ekki einstökum ráðuneytum verkefni í þessu sambandi að sneiða fram hjá einhverjum ágreiningsefnum innan ríkisstjórnarinnar og létta tilteknum ráðherrum Vinstri grænna lífið í þessu sambandi.