139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann rökstuddi mál sitt ágætlega en mér þótti reyndar miður að hann skyldi ekki útskýra fyrir okkur hvað hann ætlar að gera. Ég held að það séu komin fram nægileg gögn til að hann geti tekið afstöðu í þessu mikla máli.

Hann minntist á að ekki hefði verið metin áhætta af því í fjárlaganefnd að fara í mál, tók það fram að það hefði hvergi komið fram í álitum minni hlutans, fyrir utan þá kannski þess sem hér stendur, hvað gerist ef þetta fer á besta veg. Ég vil upplýsa þingmanninn um að ég óskaði eftir því að þetta mat yrði gert og það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stóðu með meiri hlutanum í að hafna því að það mat yrði gert. Hver er afstaða þingmannsins til málsins eftir vitneskju um þessar upplýsingar?