139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja allt sem snýr að þessu máli, Íslendingar þekkja það mjög vel. Það uppfyllti t.d. afskaplega vel þau skilyrði sem eru fyrir því að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt að fólk þekkti vel til þess. Ég efast um að nokkurt jafnflókið mál og þetta sé jafnþekkt meðal nokkurra þjóða, alveg örugglega ekki Íslendinga. Ég held að almenningur hafi alla jafna verið mjög vel upplýstur um þetta sökum þess hversu mikil umræða varð um það í þinginu. Sem betur fer var stórslysi aflýst. Ég ætla ekkert að rekja það sérstaklega en ég held að við sjálfstæðismenn höfum gert hárrétt með því að taka þá stöðu sem við tókum á sínum tíma í þessu máli og það hafi skilað þeirri niðurstöðu sem við sjáum í dag sem er án nokkurs vafa betri en sú var sem var keyrð í gegnum þingið 30. desember 2009. Það er auðvitað ekki bara okkur að þakka, öll stjórnarandstaðan kom að málum og ýmsir fleiri. Það er afskaplega gott að mál fóru þá leiðina ef þannig má að orði komast. En það er okkur líka umhugsun og lærdómur að það borgar sig að fara vel ofan í mál, ég tala nú ekki um þegar það er stórmál.

Ég ætla að rekja í þessari stuttu ræðu minni eitt sjónarhorn sem mér finnst ekki hafa verið farið yfir, gríðarstórt mál. Ég fer fram á það við hv. fjárlaganefnd að hún setjist yfir það á milli umræðna. Þá er ég að vísa til þess að grunnurinn að þessu máli öllu er gölluð tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingarkerfið. Í grófum dráttum er hún með þeim hætti að þetta er tryggingakerfi eins og nafnið gefur til kynna og hverju aðildarríki er gert skylt að koma slíku kerfi á í sínu landi. Þetta er augljóslega hugsað fyrir mjög stór lönd með margar bankastofnanir því að tryggingakerfi eru í eðli sínu ekkert annað en dreifing áhættu og þegar maður er með land eins og Þýskaland, sem ég veit ekki hvað hefur margar bankastofnanir, hvort þær eru mörg hundruð eða mörg þúsund, er alveg ljóst að slíkt kerfi þar sem menn greiða iðgjald, því að þetta er ekkert annað en iðgjald, er miklu betur til þess fallið að takast á við þau áföll ef ein og ein bankastofnun verður gjaldþrota.

Á Íslandi erum við með þrjá stóra viðskiptabanka sem eru með 70–80% af öllum innstæðum. Í bankahruninu reyndi ekki bara á þessa tryggingu, þ.e. hér á landi, heldur hefur viðskiptadeilan milli okkar og landa Evrópusambandsins, sérstaklega Bretlands og Hollands, gengið út á að við eigum að ábyrgjast greiðslur til útibúa eða starfsstöðva íslenskra banka í öðrum löndum.

Þegar menn innleiddu þessa tilskipun í þessum sal fyrir nokkrum árum sáu menn ekki fyrir þann vanda sem við lentum síðan í. Ég hef ekki lesið mig í gegnum umræðurnar en sem betur fer komum við þá í veg fyrir stórslys þegar menn felldu tillögu þáverandi og núverandi hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur sem vildu að ábyrgðar yrðu allar innstæður sem hefði væntanlega gert stöðu okkar gríðarlega erfiða í þessari deilu allri saman, kannski vonlausa. Núna liggur hins vegar fyrir þinginu, og búið að gera í eitt og hálft ár, frumvarp frá ríkisstjórninni sem gerir ráð fyrir því að við setjum nýtt innstæðutryggingarkerfi á laggirnar sem er byggt upp á nýrri tilskipun Evrópusambandsins.

Í örstuttu máli gengur þetta út á það að innstæðutryggingin hækkar úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur. Í ofanálag er sterkara orðalag hvað varðar innstæðutryggingarkerfið. Þá vísa ég í enska orðalagið og bið um leyfi forseta til að vitna beint í það, það er erfitt fyrir mig að nálgast það öðruvísi. Ég hef verið skammaður hér í þessum sal fyrir að vitna í enska tungu en það er erfitt að eiga við það þegar um er að ræða enska tilskipun. Í eldri tilskipuninni segir, með leyfi forseta:

„Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 …“ Í nýju segir: „They shall ensure that the coverage of the aggregate deposits“ o.s.frv.

Við erum búin að hafa málið í hv. viðskiptanefnd allan þennan tíma og höfum farið með þetta í umræðu í þinginu. Það er öllum ljóst hver þessi stóri galli er. Í fyrsta lagi erum við að fara upp í 100 þús. evrur. Í annan stað sem er alvarlegra er alveg ljóst að við erum ekki með margar fjármálastofnanir. Við erum í rauninni með þrjár sem eru með 70–80% af innstæðunum. Það þýðir að slíkt tryggingakerfi gengur ekki upp. Tryggingakerfi ganga upp fyrir tugi og hundruð. Ef ein af þessum þremur fjármálastofnunum fellur, þetta var reiknað út fyrir okkur, mun það taka nýja deild, sem er tillaga hæstv. ríkisstjórnar, 96 ár að ná upp í þá söfnun.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki lítið mál, þetta er stórmál. Menn hafa bent á að hugsanlega sé hægt að tryggja forgang við gjaldþrot innstæðutryggingarsjóðsins, en það er alveg ljóst að menn eru farnir að fjármagna bankana fram hjá því vegna þess að eðli málsins samkvæmt vilja þeir aðilar sem fjármagna bankana vera nokkuð tryggir um að fá fjármuni sína ef illa fer.

Síðan er hitt, menn eru með hugmyndir um að deildaskipta þessum sjóði þannig að við séum með einhverja gamla Icesave-deild sem verður síðan bara tóm þannig að þeim kröfuhöfum sem núna sækja í tryggingarsjóðinn verði bent á að þessi deild sé fullkomlega tóm og þar af leiðandi geti þeir ekki fengið neitt upp í kröfur. Fulltrúar tryggingarsjóðsins upplýstu að núna eru málaferli í gangi í Evrópu þar sem menn eru að sækja í sjóðinn. Fulltrúar tryggingarsjóðsins höfðu áhyggjur af því að ef slík mál mundu tapast væri erfitt að sýna fram á það fyrir dómstólum að þeir aðilar sem ættu kröfuna gætu farið í gömlu gjaldþrota deildina en ekki í nýju deildina sem menn ætla að byrja að safna í núna og mun taka áratugi.

Ég held, virðulegi forseti, að ef við viljum læra af fortíðinni beri okkur skylda til að fara mjög vel yfir þetta. Þetta tengist þessu Icesave-máli eins mikið og mögulegt er. Þegar menn tala um áhættu af samkomulaginu, breyttu fyrirkomulagi o.s.frv. er þetta nokkuð sem menn þurfa að taka með í reikninginn. Nú höfum við þann tíma sem við viljum milli umræðna. Ég held að við viljum ekki, sérstaklega ef illa fer — hvað þýðir: Ef illa fer? Segjum að einn af bönkunum yrði gjaldþrota á næstu árum, segjum eftir 20 ár, þá værum við með tvöfaldan vanda, annars vegar Icesave-vandann ef við þurfum að greiða einhverja hluti sem menn hafa áhyggjur af og hins vegar er spurningin hvernig menn eiga að fjármagna slíkt áfall. Nú kynni einhver að segja að það væri svartsýnisraus að hafa áhyggjur af því að bankar fari á hausinn. Við höfum séð að það getur svo sannarlega gerst og nú er ég ekkert að tala um kerfishrun, ég er bara að tala um einn banka, einn af þrem. Ég þekki það sem nefndarmaður í hv. viðskiptanefnd að í það minnsta mun Landsbankinn ekki þola fyrningarleið ríkisstjórnarinnar. Það er opinber stefna hæstv. ríkisstjórnar að fara þá leið, sama hvað tautar og raular. Og sá banki mun ekki þola þann skell.

Virðulegi forseti. Ég held að allir þeir sem hafa komið að þessu máli hafi lagt sig fram og vinni hér eftir bestu samvisku. Ég veit t.d. að í hv. fjárlaganefnd hafa menn unnið gríðarlega vel og reynt að greina hlutina eins mikið og vel og hægt er þó að menn geti aldrei klárað það. Þegar upp er staðið er það mat hvers og eins hv. þingmanns hvað hann telur best fyrir íslenska þjóð. Maður ber virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum í því.

Þetta er hins vegar þáttur sem ég ákvað að draga sérstaklega upp vegna þess að í þessu flókna máli sem svo sannarlega tekur til mjög margra þátta hefur þetta lítið sem ekkert verið rætt og þetta mál fer ekkert frá okkur.

Ég fór fram á það í fyrravor þegar við ræddum þetta, og var ekki einn um það heldur flestir í stjórnarandstöðu, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem þá var annar einstaklingur færi og ræddi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þennan vanda sem við Íslendingar værum í í tengslum við þessa tilskipun. Það hefur ekki verið gert. Það hefur verið talað við nágrannaþjóðir okkar og samstarfsmenn af minna tilefni. Ég held að allir þeir sem sitja í hv. viðskiptanefnd geti verið sammála um að eftir allan þennan tíma, tæplega tvö ár, erum við enn ekki komin með lausn sem menn telja ásættanlega fyrir framtíðarfyrirkomulag bankamála á Íslandi. Þá er ég að vitna í þetta innstæðutryggingarkerfi. Eins og staðan er í dag er okkur nauðugur einn kostur að innleiða þetta kerfi. Eins og það liggur fyrir þingi núna gengur það ekki upp.

Ég vek athygli á því að þau varnaðarorð sem ég hef hér uppi um málaferlin gagnvart tryggingarsjóðnum komu fram hjá forustumönnum tryggingarsjóðsins sjálfs. Það eru þeir aðilar sem hafa áhyggjur af þeim. Einn forustumaðurinn þar hafði áhyggjur af því að það yrði erfitt að nota það sem vörn að sjóðurinn væri deildaskiptur ef málin töpuðust og vísaði þar í reynslu sína í skattamálum. Viðkomandi einstaklingur hefur mjög mikla reynslu á því sviði.

Annað sem ég held að væri skynsamlegt að líta til er niðurstaðan í málaferlum sem ýmis fyrirtæki eru í gegn Landsbankanum varðandi gjaldeyrislánin sem þau tóku hjá bankanum. Ég þarf ekki að rifja upp, virðulegi forseti, hvaða afleiðingar það hafði þegar dómur féll síðast varðandi gjaldeyrislánin. Ég held að það væri afskaplega skynsamlegt og varkárt af þinginu að bíða þessa daga sem eftir eru til að sjá hver niðurstaðan verður í því máli. Miðað við þær bestu heimildir sem ég hef á að falla dómur í þessum mánuði. Ef einhver veit betur hér inni væri gott að fá leiðréttingu á því, en þetta er miðað við þær bestu upplýsingar sem ég hef.

Síðan er annað mál, virðulegi forseti, sem snýr að stjórnskipun Íslands. Áður var kennt í stjórnmálafræðideildinni, m.a. af núverandi forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, að það væri dauður bókstafur að vísa málum til þjóðarinnar og forsetinn hefði í rauninni ekki það vald að skrifa ekki undir og vísa máli til þjóðarinnar eins og það er kallað. Það hefur nú verið gert í tvígang og ég held að menn þurfi að hugsa það vel ef þeir sjá fyrir sér að almenna reglan hjá þeim sem munu gegna forsetaembættinu í framtíðinni, og í nútíðinni, verði að einn þáttur sé að sjá hvernig málum verði fyrir komið með því að vísa þeim í þjóðaratkvæði, sömuleiðis þegar það hefur gerst eins og í þessu tilfelli hvort það sé réttlætanlegt að þingið taki endanlega afstöðu eða hvort þingið eigi með ákvörðun sinni að vísa viðkomandi máli til þjóðarinnar. Þetta er komið á þennan reit út af niðurstöðunni úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég held að þetta sé þáttur sem við þurfum að ræða.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið hér. Mér hefur fundist hún góð. Ég held að í fáum málum hafi jafnmargir lagt jafnmikið á sig, bæði innan þings og utan, til að ná eins góðri niðurstöðu og hægt er. Það liggur hins vegar alveg fyrir að við erum í stöðu sem við vildum ekki vera í. Ég held að við flest, ef ekki öll, höfum þá sterku sannfæringu að okkur beri ekki lagaleg skylda til að ganga að neinum samningum um mál eins og þessi. Ég held að það sé sannfæring flestra. Hins vegar er málið flóknara en það eins og við þekkjum. Ég ætla ekki að rekja það allt saman. Menn hafa farið hér yfir það hvað eftir annað, margir aðilar, og það er svo sem hægt að ræða það mjög mikið áfram. Við munum örugglega gera það. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég beini því til hv. fjárlaganefndar að hún skoði þann þátt sem ég vísaði hér til. Hann er nefnilega gríðarlega stór, við erum að tala um gríðarlega hagsmuni fyrir íslenska þjóð og sá þáttur fer ekki frá okkur. Við höfum sýnt það, m.a. í þessu máli, að ef menn fara málefnalega yfir hlutina og reyna að nálgast þá með lausn í huga getum við gert það. Í þessu tilfelli á þjóðin það svo sannarlega skilið. Við getum ekki gengið frá þessu máli án þess að vera með einhver svör við þessum spurningum. Þetta frumvarp sem ég vísaði hér til tengist þessu máli órjúfanlegum böndum þrátt fyrir að það sé í annarri hv. nefnd Alþingis.