139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:00]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum verðtrygginguna sem Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur kallað skálkaskjól stjórnvalda sem hafa hvorki haft vilja né getu til að stjórna peningamálum Íslands. Síðustu ár höfum við orðið vitni að stórfelldri eignaupptöku því að sparnaður fjölmargra heimila í landinu var bundinn í fasteign, heimili fjölskyldunnar. Er eigið fé margra í húseignunum horfið og það er algjörlega óásættanlegt.

Ég tek undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem talaði á undan mér um að nauðsynlegt sé að leiðrétta lánin. Það er ekki nóg að afnema verðtrygginguna núna, við þurfum að fara í rót vandans. Ég hafna því að hér á Íslandi séu endalaust einhverjar séríslenskar aðstæður. Það er ekki svo. Hér hafa vissulega verið óhæfari stjórnendur en víða annars staðar en það eru ekki önnur lögmál sem gilda á Íslandi en annars staðar og við getum alveg afnumið verðtrygginguna ef við viljum.

Ég hef frétt úr Vísi frá 17. febrúar 2009 fyrir framan mig. Þar er vitnað í orð Steingríms J. Sigfússonar sem var þá nýbakaður fjármálaráðherra, orð sem hann lét falla á borgarafundi 16. febrúar 2009. Hann var m.a. spurður að því hvað hann vildi gera við verðtrygginguna. Hann svaraði því á þann veg að hann vildi afnema hana þegar búið væri að ná verðbólgunni niður. Þá yrði gerlegt að afnema hina umdeildu verðtryggingu. Á þessum tíma var ársverðbólga í kringum 18%, nú í janúar var hún 1,8% og ég spyr ráðherra efnahags- og viðskiptamála hvort hann telji ekki orðið tímabært að afnema verðtrygginguna.