139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Vegna þessara síðustu orða vil ég minna á stöðu Grikklands og aðstoð Evrópusambandsins við það. Þetta er undarleg staða í jafnlitlu hagkerfi að við séum með tvær myntir; annars vegar verðtryggða mynt og hins vegar óverðtryggða mynt. Ég vildi gjarnan hverfa frá þeirri stöðu.

Verðtryggingin hefur bæði kosti og galla. Ég minni á að mest allur lífeyrir landsins er verðtryggður hjá lífeyrissjóðunum. Það hefur hjálpað lífeyrisþegum mikið í kreppunni sem riðið hefur yfir. Ef menn ætla að taka upp óverðtryggða vexti þurfa þeir líka að taka upp aga, að innlánsvextir yrðu alltaf hærri en verðbólgan annars tapar sá sem frestar neyslu, þ.e. sparifjáreigandinn og þá hættir hann að spara. Það var einmitt orsök þess að verðtryggingin var tekin upp eftir 1980, allur innlendur sparnaður var nánast horfinn og lífeyrissjóðirnir voru gjaldþrota. Neikvæðir raunvextir voru einmitt ástæðan fyrir því að við tókum upp verðtryggingu. Það var neyðarúrræði. Menn gleyma sparifjáreigandanum, þeir tala alltaf um skuldarann. Uppruni fjárins sem er lánað er sparnaður, einhver frestar neyslu og leggur fyrir. Sparnaður er forsenda þess að hægt sé að lána út peninga. Útlán á peningum er forsenda þess að menn geti farið í fjárfestingar. Fjárfestingar eru forsenda þess að hér skapist atvinna og skapist hér atvinna kemur það í veg fyrir brottflutning Íslendinga til útlanda. Við verðum að tryggja innlendan sparnað með öllum ráðum. Á meðan menn eru ekki tilbúnir að taka upp þennan aga, að innlánsvextir séu hærri en verðbólga, þá sé ég ekki annað en við verðum að hafa verðtryggingu. Núna er staðan þannig hjá flestum sparifjáreigendum sem eru með óverðtryggða reikninga að þeir tapa á því að leggja fyrir, sérstaklega eftir að ríkisstjórnin hefur hækkað skatta á fjármagn.