139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[17:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er hægt að fara yfir mörg atriði. Ég fer yfir tvö.

Í fyrsta lagi varðandi sérkennslu og svar hæstv. ráðherra um hana. Ég brýni það fyrir ráðherra að athuga með Öskjuhlíðarskóla sem er núna að herða aðgang að skólanum sem slíkum. Eftir stendur að við erum með skóla án aðgreiningar og við erum sammála um það. Það þarf að gæta sérstaklega að því að verið sé að sinna sérkennslu í grunnskólum landsins eins og börnin eiga rétt á. Það snýst um lífshamingju barna og möguleika barna með þroskahamlanir til sjálfsbjargar til lengri tíma litið.

Í öðru lagi er ég hrædd um að ráðherra sé m.a. að breyta námskrá með því að minnka valið hjá nemendum, minnka sveigjanleikann. Ég spyr þá: Hvar á að skerða valið? Það er brýnt að það komi fram.

Í þriðja og síðasta lagi var alveg ljóst hvaða framhaldsskólar hefðu styttra nám til stúdentsprófs, það voru Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi og Kvennó. Allt rétt. En fyrirgefið, frú forseti, það var ákveðið áður en hæstv. núverandi menntamálaráðherra tók við embætti. Ég spyr: Hvað hefur hæstv. ráðherra gert núna til að ýta við skólum til að fjölga námsbrautum? Hvert hefur svar hæstv. ráðherra t.d. verið gagnvart okkar gamla sameiginlega skóla, Menntaskólanum við Sund? Hvað með skólann fyrir norðan, við norðanverðan Eyjafjörð, sem ég veit að vildi m.a. athuga þá leið?

Ég tel þetta vera eins og menn séu að pissa í skóinn sinn, að þeir ætli ekki að fylgja þessu eftir. Jú, það kostar ákveðið fjármagn að halda áfram innleiðingu laganna, en til lengri tíma er það tvímælalaust til hagsbóta og hagræðingar fyrir ríkissjóð að halda áfram innleiðingu skólalöggjafarinnar með því að fjölga þeim sem útskrifast með nám til stúdentsprófs á skemmri tíma en fjórum árum. Með það í huga er ég líka sannfærð um að við munum stuðla að því að brottfall í framhaldsskólunum verði mun minna. Það er samhengi á milli þess að Ísland er með mesta brottfall innan OECD og þess að Ísland er með lengsta nám til stúdentsprófs innan OECD. Þar er samhengi á milli. Ég hvet hæstv. ráðherra til (Forseti hringir.) að taka á þessu. Ég vil meina að þetta sé pólitísk forgangsröðun (Forseti hringir.) og að það skipti máli að hæstv. ráðherra nýti tækifærin sem felast í skólalöggjöfinni. Hún er með þingið með sér (Forseti hringir.) ef hún kýs svo.