139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þegar hún lýsir eftir stefnu og stofnun hóps er tekur á velferðarmálum barna, sérstaklega á sviði menntamála. Því er þannig farið í dag að sveitarfélögin þurfa að standa við lögbundna þjónustu og það er mjög mikilvægt að fylgja því eftir að þau geri það og fari þá frekar í að hækka útsvarið en að skerða lögbundna þjónustu, eins og kennslustundir í grunnskóla, þegar þessar sveitarstjórnir og bæjarstjórnir eru að reyna að ná jafnvægi í rekstrinum.

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að í dag komu fram á eyjan.is upplýsingar um að meiri hlutinn í Reykjavík væri að íhuga að hætta við fækkun kennslustunda á grunnskólastiginu. Ástæðan er m.a. að sú tillaga hefur mætt mikilli andstöðu foreldra. Ég fagna þessari hugarfarsbreytingu hjá meiri hlutanum í Reykjavík vegna þess að á krepputímum er mjög mikilvægt að við séum með rétta forgangsröðun og setjum börnin í fyrsta sæti og okkur sjálf í annað sæti. Við þessa forgangsröðun getum við haft í huga reynslu Finna af fjármálakreppunni sem ekki settu börnin í fyrsta sæti og ekki heldur þá sem standa höllum fæti.

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta ákall (Forseti hringir.) um að stofnaður verði sérstakur velferðarhópur sem gætir hagsmuna barna á þessum niðurskurðartímum.