139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. varaformann menntamálanefndar, Lilju Mósesdóttur, í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og vekja athygli á því að það er mat sveitarstjórnarmanna að mjög þrengist nú um þá hagræðingarkosti sem séu fyrir hendi án þess að skerða grunnþjónustuna. Sveitarfélög sinna núna m.a. lögbundnum verkefnum sem ekki verður undan vikist eins og allir vita. Önnur viðfangsefni eru ekki endilega lögbundin þótt þau skipti gríðarlega miklu máli fyrir samfélögin um allt land. Tónlistarskólar eru gott dæmi um þetta.

Þá má nefna að niðurgreiddar skólamáltíðir eru ekki lögbundnar en hafa margvíslega þýðingu. Hækkun á skólamáltíðum mun augljóslega verða mjög íþyngjandi fyrir efnaminni fjölskyldur á tímum þegar víða þrengist um í búi fólks. Þá nýta sveitarfélögin, mörg hver, tekjumöguleika sína til hins ýtrasta þannig að ekki er hægt að vísa þeim á þann möguleika að hækka útsvar eins og ég sé að nú er verið að ræða í Reykjavík. Möguleikar á auknum tekjum á sama tíma og atvinna dregst saman og kaupmáttur er að rýrna eru þess vegna ekki miklir né líklegir til að ná árangri. Úrræði sem sveitarfélögin hafa til að láta enda ná saman eru þess vegna ekki ýkja mörg. Nú sjáum við að brugðist er við með því að skerða þjónustu sem er ekki lögbundin og hækkar margvísleg gjöld. Ég nefni sem dæmi, sem fram hefur komið í samantekt Alþýðusambands Íslands, að skóladagvist er að hækka um allt að 35%, skólamáltíðir eru að hækka um allt að 25% og tónlistarnám á höfuðborgarsvæðinu er eins og menn vita í hreinu uppnámi og stefnir núna óðfluga að því að verða eingöngu færi á hinna efnameiri.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að hennar mati að bregðast við óskum sveitarfélaganna eins og þær hafa verið settar fram og opna á fleiri úrræði sveitarfélaga sem snúa að menntamálum, skólamálum, og gera breytingar sem gera þeim kleift að hagræða án þess að til þess þurfi að koma að setja íþyngjandi gjöld á efnaminni fjölskyldur og draga úr tónlistarnámi og skerða þannig sérstaklega (Forseti hringir.) möguleika þeirra sem hafa minni efni til að stunda þetta mikilvæga nám.