139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í smásamtal við formann allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, vegna þess máls sem var til umræðu hér á undan um virðingu fyrir Hæstarétti. Nú hefur það gerst í tvígang undanfarna daga — fyrst ógildir Hæstiréttur stjórnlagaþingskosninguna og í síðustu viku dæmir hann framkvæmd hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, gagnvart Flóahreppi ógilda.

Mig langar að spyrja þingmanninn, formann allsherjarnefndar, þar sem dómstólarnir heyra undir allsherjarnefnd — og það skal tekið fram að ég sit í þeirri nefnd ásamt þingmanninum: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þeirri þróun sem úrskurðir og dómar Hæstaréttar hafa á íslenskt samfélag á þann hátt að hér er að myndast mikil stemning fyrir því að landsmenn og þeir sem eru dæmdir eigi ekki að fara eftir úrskurði eða dómum Hæstaréttar? Þetta er mjög alvarlegt mál og það heggur mjög nálægt réttarríkinu. Ég er mjög slegin yfir því að hlusta á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson fara í málsvörn fyrir flokkssystur sína, hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, og túlka niðurstöður Hæstaréttar á þann veg að Hæstiréttur hafi jafnvel verið í órétti með því að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst að. Ef alþingismenn tala með þessum hætti er ekki nein von til þess að landsmenn allir taki niðurstöðu Hæstaréttar alvarlega. Ég spyr því á ný: Hefur hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, ekki miklar áhyggjur af því hvernig þessari orðræðu er farið nú síðasta mánuðinn? Það sem er kannski einna merkilegast í þessu er það að svo virðist vera að vinstri menn standi að mestu fyrir því að tortryggja niðurstöðu Hæstaréttar.