139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum í dag og ræddum í gær ábyrgð ráðherra. Það kom fram í máli mínu í gær að Alþingi afgreiddi málefnið ráðherraábyrgð þann 28. september í fyrra með afgerandi atkvæðagreiðslu í málum fjögurra ráðherra sem reynt var að fá fyrir landsdóm til að fá niðurstöðu í mál þeirra. Þar greiddu þingmenn, þar á meðal þingmenn Sjálfstæðisflokksins, beinlínis atkvæði gegn því að mál ráðherranna færu fyrir þar til bæran dómstól og komu í veg fyrir að mál þriggja ráðherra af fjórum færu í réttan farveg.

Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar atlögu sem nú er verið að gera að umhverfisráðherra þó að það sé ekki mitt hlutverk að verja hana. En hér er annars vegar um að ræða meinta ábyrgð fjögurra ráðherra sem með athöfnum sínum eða athafnaleysi ollu mesta efnahagshruni Íslandssögunnar og hins vegar ábyrgð ráðherra vegna vegarspotta og vatnsveitu í Flóanum.

Frú forseti. Tíma þingsins væri e.t.v. betur varið í að ræða annað en svona smjörklípu þingflokks Sjálfstæðisflokksins vegna eigin uppgjafar í Icesave-málinu. (BirgJ: Heyr! Heyr!)