139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum kjörin á þing, alþingismenn, og kannski ekki hvað síst hæstv. ráðherrar, til að gegna störfum okkar af virðingu og af auðmýkt gagnvart þeirri ábyrgð sem okkur hefur verið falin. Nú nýlega kom það í ljós að hæstv. umhverfisráðherra hafði gerst brotlegur við lög, var dæmdur af Hæstarétti sjálfum. Við höfum mörg gagnrýnt það að hæstv. ráðherra skyldi hafa farið á svig við lög sem Alþingi Íslendinga hefur sett. Það hefur verið rætt um það á þessum vettvangi að það sé alvarlegur hlutur og við höfum kallað eftir því að hæstv. ráðherra biðjist í það minnsta afsökunar á þessum gerðum sínum.

En hvað gerist? Forusta ríkisstjórnarinnar slær skjaldborg utan um hæstv. ráðherra, hælir honum og segir að við séum svo lánsöm að eiga ráðherra sem sé með harða pólitík. En í hinu orðinu gleyma þau að minnast á það að við erum með ráðherra sem virðir ekki lög. Og það minnsta, held ég, sem við ættum að fá að heyra í orðræðunni af hálfu ríkisstjórnarinnar væri orðið „afsakið“. Við biðjumst afsökunar á þessu. Við brutum lög. Ekki ætlum við að fara að deila við Hæstarétt.

Nei, þvert á móti kemur hæstv. fjármálaráðherra hér upp og snýr því upp á Landsvirkjun og sveitarstjórn Flóahrepps að bornir hafi verið fjármunir á sveitarstjórnina, að Landsvirkjun hafi keypt sér niðurstöðuna og segist vera stoltur af framgöngu síns ráðherra. Ég held að við ættum að spyrja okkur að því á hvaða vegferð íslensk stjórnmál eru í dag þegar valdhrokinn er svo yfirgengilegur sem raun ber vitni, að ríkisstjórnin skuli ekki viðurkenna það gagnvart kjósendum sínum og Hæstarétti að lög hafi verið brotin. Þeim dettur ekki einu sinni í hug að biðjast afsökunar á þessum gjörðum, því miður. (Gripið fram í.)