139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög sérstök umræða sem á sér stað varðandi það að hæstv. umhverfisráðherra var dæmdur af Hæstarétti. Nú virðist það þannig að umhverfisverndarsinnar og þeir sem eru harðir í þeirri pólitík telji að annað eigi að gilda um umhverfisvernd og þá sem eru dæmdir í þeim efnum en aðra sem eru dæmdir af Hæstarétti. Það á sem sagt að gera upp á milli fyrir hvað fólk er dæmt. Ég get ekki skilið orð hv. þm. Þórs Saaris áðan á annan veg en þann að það væri akkúrat þannig sem hlutirnir ættu að vera, að það sé minna mál að vera dæmdur af Hæstarétti fyrir það sem hæstv. umhverfisráðherra er dæmdur fyrir en eitthvað annað. Að sjálfsögðu er þetta sama málið. Hæstiréttur er búinn að dæma ráðherrann sekan, ef þannig má orða það, og að sjálfsögðu á ráðherrann að segja af sér, að sjálfsögðu á hann að axla ábyrgð.

Menn standa hér, ekki síst í núverandi stjórnarflokkum, í þessum ræðustól, þenja brjóst og tala um ný vinnubrögð, nýja Ísland, að nú sé allt breytt. En hvað hefur breyst? Menn sitja áfram þó þeir séu dæmdir fyrir brot. Það er reynt að snúa út úr. Og talandi um smjörklípu, auðvitað er þetta smjörklípa, stjórnarflokkarnir og fylgismenn þess að umhverfisráðherra sitji áfram eru að reyna að draga athygli að því að þetta sé bara smámál. En auðvitað er þetta ekkert smámál. Það er búið að dæma ráðherrann, hún á vitanlega að axla ábyrgð ef við ætlum að leggja einhverjar breyttar línur til framtíðar. En við getum líka að sjálfsögðu lagt þá línu að við eigum bara að hunsa það þegar Hæstiréttur dæmir að ráðherra sé sekur eða hafi gerst brotlegur eða eitthvað slíkt. Við getum líka bara ákveðið það hér, þingmenn, að við ætlum ekki að hlusta á það hér eftir.

Frú forseti. Mér finnst þetta tónninn sem stjórnarflokkarnir eru að slá. Ráðherra er dæmdur af Hæstarétti, hunsum það bara af því að þetta er bara pólitík, eins og hefur heyrst svo oft, eða vegna þess að málið þóknast okkur ekki akkúrat núna. Eitt hlýtur að þurfa að ganga yfir alla í þessu. Því hljótum við að þurfa að breyta vinnubrögðum og setja ný viðmið til framtíðar, burt séð frá því hvað hefur gerst í fortíðinni, og það er ekki allt fallegt.