139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf í þágu þjóðar -- málefni grunnskólans -- skipulagsmál sveitarfélaga o.fl.

[14:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það fer fram utandagskrárumræða á eftir um ákvörðun Hæstaréttar í máli umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta en mér finnst ósmekklegt hvernig hv. þingmenn koma upp til að verja hæstv. umhverfisráðherra og um leið er verið að hnýta í sveitarstjórnarfólk. Mér finnst ekki mikill sómi að því en það verður farið yfir þetta á eftir.

Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur, varaformanni menntamálanefndar, fyrir að koma upp og taka undir þau sjónarmið sem ég setti fram. Mér fannst hún taka sérstaklega undir það að við eigum að einbeita okkur að því að verja grunnmenntun og lögbundin réttindi barna okkar. Ég er ósammála henni um að það þurfi að hækka útsvarið í Reykjavík til þess að verja þetta. Ég vil benda sérstaklega á að fyrir tveimur árum hagræddi borgarstjórnin, bæði meiri hluti og minni hluti, í rekstri með fulltingi starfsfólks í ráðuneytinu og mig minnir að það hafi verið skorið niður eða hagrætt um 3 milljarða án þess að grunnþjónustan hafi orðið fyrir barðinu á því.

Ég held að það sé borð fyrir báru og tel að hægt sé að gera þetta svo lengi sem menn eru meðvitaðir um hvað það er sem þarf að verja í hagræðingu og niðurskurði innan sveitarfélaganna. Það þarf að styrkja sveitarfélögin í þá veru að auka svigrúm þeirra til rekstrar bæði leik- og grunnskóla. Um leið þarf að ítreka það ákall til Kennarasambandsins að það taki þátt í að auka sveigjanleika í kerfinu til að við getum varið réttindi barnanna.