139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:08]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Einn meginkjarni umhverfisréttar er að tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þetta er meginkjarninn í Ríó-yfirlýsingunni og í alþjóðlegum samþykktum umhverfismála sem við erum skuldbundin af og þessi meginregla var sett inn í lögin frá 1997, þáverandi skipulagslög. Þessi regla byggir á því að betur sjá augu en auga, en þar segir m.a. um meginmarkmiðið að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála og aðkomu einstaklinga. Tryggja skal réttaröryggi.

En hvað gerðist þarna? Á fundi sveitarstjórnar 13. júní 2007 var samþykkt tillaga sem gerði ekki ráð fyrir virkjuninni. (Gripið fram í: Hún gerði ráð fyrir …) Tveimur dögum seinna óskaði Landsvirkjun eftir fundi með sveitarstjórninni — sveitarstjórnin hafði lýst sig gegn þessu vegna umhverfisástæðna og fleiri ástæðna — og samdi við sveitarstjórnina gegn greiðslu um að taka upp þessa tillögu um Urriðafossvirkjun. Sú niðurstaða var staðfest með sérstöku samkomulagi. Með því fékk Landsvirkjun því hreinlega framgengt að tillögunni var breytt. Eftir það var málsmeðferðin til málamynda, aðkoma og réttaröryggi almennings til málamynda. Ég vil líka minna á að meiri hluti kosningarbærra íbúa Flóahrepps skrifaði undir undirskriftalista þar sem þeir andmæltu virkjuninni þarna. (Gripið fram í: Var ekki …?)

Það hefur verið rakið hér að bornar voru fram greiðslur sem voru allsendis óviðkomandi skipulagsmálum; sími, vegalagningar, 40 millj. kr. eingreiðsla og þar fram eftir götunum. Og það átti ekki að borga þetta fyrr en búið væri að staðfesta skipulagið. Um þetta var djúpstæður réttarágreiningur. Ef eitthvað er ekki bannað er það heimilt, hver kannast ekki við það úr hruninu? (Forseti hringir.) Nú hefur Hæstiréttur skorið úr, réttaróvissa er óþolandi og niðurstaða Hæstaréttar kallar á breytt lög að þessu leyti. (Gripið fram í: Það er búið að breyta lögunum.)