139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur andsvarið. Það sem ég geri aðallega athugasemdir við er að Fjármálaeftirlitið gefur sér að aukin skattheimta á bankana muni beinlínis leiða til þess að vaxtamunur aukist. Ef menn gera það eru þeir einfaldlega að gefa sér að sá hagnaður sem bankarnir hafa skilað undanfarin tæp tvö ár sé einhvers konar fasti sem geti ekki breyst.

Ég hafna þeim rökum að ekki sé hægt að skattleggja fyrirtæki öðruvísi en allri þeirri skattlagningu sé velt yfir á neytendur. Samkvæmt lögmálum, ef hægt er að tala um lögmál í hagfræði sem bæði ég og hv. þingmaður erum menntuð í, lendir hluti skattahækkana á almenningi og hluti þeirra á fyrirtækjunum, hve mikill fer eftir eðli eða umhverfi þeirrar greinar sem um er að ræða. Þar sem nægileg samkeppni er á markaði lendir einfaldlega minni hluti skattahækkana á neytendum og meiri hluti beint á eigendum fyrirtækja. Þrátt fyrir álagspróf sem Fjármálaeftirlitið virðist gera rýma þau ekki almennilega við þann hagnað sem bankarnir sýna og heldur ekki við álit Fjármálaeftirlitsins, að skattarnir muni þá velta yfir í vaxtamun.

Ég set því spurningarmerki við niðurstöðu meiri hluta viðskiptanefndar. Þar er tekið undir álit Fjármálaeftirlitsins og mér finnst spurningarinnar virði að vita hvers vegna það er gert.