139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í 3. umr. um þetta mál sem við höfum velkst með á Alþingi á þriðja ár, sem er gríðarlega mikill tími. Það dapurlega við stöðuna í dag er að málið virðist ætla að enda á sama hátt og það byrjaði. Allt skal gert til að koma í veg fyrir að réttar upplýsingar komi fram til að ítarleg málefnaleg umræða eigi sér stað í sölum Alþingis. Ég harma að þetta skuli vera staðan vegna þess að á tímabili í vinnu fjárlaganefndar fannst mér vinnan ganga vel. Svo virðist sem einhver utanaðkomandi þrýstingur, ég gef mér að það sé frá framkvæmdarvaldinu, hafi gert það að verkum að allt í einu átti að keyra málið í gegn.

Mál þetta snýst nefnilega um réttar upplýsingar, að réttum upplýsingum sé komið á framfæri við alþingismenn svo að þeir geti tekið málefnalega og upplýsta afstöðu til málsins. Það snýst líka um að almenningur og fjölmiðlar fái þessar sömu upplýsingar þannig að einstakir aðilar geti vegið og metið og athugað frá sínum eigin ranni og eigin sjónarmiðum hvort þeir séu reiðubúnir að samþykkja að gangast undir Icesave-samningana eða ekki. Málið hófst þannig og málið ætlar að enda þannig. Það er miður.

Ekki liggur frammi nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar og hv. þm. Oddný Harðardóttir útskýrði að það þyrfti ekki alltaf að vera þannig. Ég hefði samt haldið, í ljósi allra þeirra upplýsinga sem hafa komið fram og hversu ítarlega hún fór yfir málið í ræðu sinni, að það hefði verið rétt og eðlilegt að leggja slíkt álit fram. Þannig hefðu aðrir, þingmenn, fjölmiðlar, almenningur í landinu geta metið það á sjálfstæðan hátt það sem þar kom fram og svarað því í ræðustól. Ég reyndi samt að hlusta gaumgæfilega og taka niður punkta og mig langar til að gera athugasemdir við nokkrar af þeim fullyrðingum sem komu fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar, Oddnýjar Harðardóttur.

Fyrir það fyrsta svarar hún ágætum prófessor frá Noregi, sem ég vísa í í áliti mínu við 2. umr., sem ber heitið Peter Ørebech. Þessi ágæti lagaprófessor skilaði áliti til fjárlaganefndar, dags. 13. desember 2010. Meiri hlutinn hefur ekki áður svarað því sem hann bendir á en hann dregur í efa að samkomulagið samrýmist reglum á innri markaði EES er varða ríkisstyrki og það hafi grundvallarþýðingu að skilgreina hver sé staða íslenska tryggingarsjóðsins gagnvart íslenska ríkinu en sjálft samkomulagið virðist gera ráð fyrir að sjóðurinn, sem aðilar á fjármálamarkaði bera almennt kostnað af, sé meðskuldari sem geti átt rétt og borið skyldur.

Ég gat ekki greint annað en að hv. formaður fjárlaganefndar hafi vísað í hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, ráðherra þeirra málefna, en hann vísaði í fjárlaganefnd til einhvers ótiltekins manns hjá ESA sem hafði sagt eitthvað á þá leið að þar sem þetta ætti við innstæðutryggingarsjóðinn þá væri þetta bara eitthvert bull og vitleysa hjá þessum ágæta norska lagaprófessor sem þó gaf sér tíma til að skrifa ítarlegt og gott álit og leggja fyrir fjárlaganefnd. Mér finnst einhvern veginn að sú staðreynd að hægt sé að vísa í orð ráðherra sem ræddi við einhvern annan mann hjá ESA um að eitthvað sé svona endurspegla málið í heild sinni. Það á bara að finna öll rök hvort sem hald er í þeim eða ekki. Það liggur enginn fræðilegur grunnur, engin skrifleg gögn á bak við þau til að ná Icesave-málinu í gegn á Alþingi. Það er ótrúleg staðreynd verð ég að segja.

Í annan stað nefndi hún að breytingartillaga mín sem felur það í sér að ef í ljós kemur fyrir dómstólum eða þar til bær úrlausnaraðili telur að Íslendingum beri engin lagaleg skylda til að greiða Icesave yfir höfuð þá sé það þannig. Þetta er svo fullkomlega eðlilegt ákvæði í þau lög sem við erum að setja á Alþingi að það hálfa væri nóg. En þá er sagt að þetta hafi verið reifað í samninganefndinni og Íslendingar hafi fengið betri kjör fyrir vikið. Minna hefði það reyndar ekki mátt vera, að samninganefnd sem sest að borðum og ræðir við Hollendinga og Breta skuli ekki nota þá staðreynd að það hefði verið mikil óvissa um hvort Íslendingar eigi að borga þetta yfir höfuð eða ekki. En vandamálið er hins vegar að það hefur ekkert með þau lög að gera sem við erum að samþykkja hér í dag, nákvæmlega ekki neitt. Við getum sett sem fulltrúar þjóðarinnar þetta einfalda ákvæði. Ef það kemur í ljós, jafnvel þótt við förum ekki í mál sjálf, af einhverjum þar til bærum aðila, dómstóli, úrlausnaraðila innan Evrópusambandsins, að við eigum ekki að greiða þá fái börnin okkar í framtíðinni að njóta þess.

Af hverju skyldi það skipta máli? Jú, vegna þess að það á að leggja á íslenska skattgreiðendur að taka á sig niðurskurð sem nemur þeim 26 milljörðum sem við ætlum að greiða í vexti á næstu dögum verði Icesave samþykkt. 26 milljarðar eru gríðarlegar fjárhæðir í ljósi þess að allur niðurskurður síðasta árs var 40 milljarðar. Þetta eru ekki litlar fjárhæðir.

Einnig má benda á að í upphafi málsins kom fram álit frá breskri lögmannsstofu, Mishcon de Reya, þar sem hún taldi að verulegur vafi væri á því og mætti reyndar færa mjög sterk rök fyrir því að Íslendingar ættu ekki að borga yfir höfuð. Þessu var stungið undir stól. Þetta mátti ekki koma fram vegna þess að það mundi eyðileggja málatilbúnað ríkisstjórnarinnar.

Hreyfingin hefur lagt fram breytingartillögu, sem ég og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru reyndar á líka, um að málið skuli lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver eru rök meiri hlutans fyrir því að ekki megi samþykkja þá sjálfsögðu beiðni að leggja stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í dóm hennar? Það er óljóst lagatæknilega séð hvort það sé hægt. Engin önnur rök hafa komið fram. Kannski koma þau á eftir. En áttum okkur á því að hæstv. fjármálaráðherra er eini stjórnarþingmaðurinn í sal Alþingis og ber að virða hann fyrir það. Hér eru ekki — jú, hér kemur hv. formaður fjárlaganefndar, það er vel að hún sé hér og hafi verið að hlusta þó að hún hafi verið stödd í hliðarsal en fleiri eru ekki og ég reikna ekki með að hér verði mikil umræða af þeirra hálfu.

Síðan komum við að þeim fullyrðingum að ef við samþykkjum ekki Icesave þá verður efnahagslegt tjón okkar meira, svo ég vitni í orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur þegar hún mælti fyrir meiri hlutann áðan. Þá skulum við skoða hvert efnahagslegt tjón okkar var af því að samþykkja ekki Icesave 1 og Icesave 2. Það er hægt að fara yfir það. Gögn liggja fyrir um að efnahagslegt tjón okkar varð ekki neitt, nema þá að það snarbatnaði ef eitthvað var. Það snarbatnaði og ég trúi því ekki að þingmenn meiri hlutans ætli að halda því fram að það að hafa sparað þjóðinni hundruð milljarða kr. — þá erum við að tala um höfuðstólinn og vaxtagreiðslurnar og um 65 milljarða í vaxtagreiðslur fyrir síðustu tvö árin — sé ekki efnahagslegur ávinningur fyrir þjóðina. Það liggur í augum uppi, virðulegi forseti.

Hvert verður þá efnahagslegt tjón okkar? Auðvitað reiðir meiri hlutinn sig á þá staðreynd að það sé bara eitthvað sem kemur í ljós í framtíðinni. En hvernig getum við lagt mat á það? Jú, við skulum fyrst skoða hvort einhver fótur hafi verið fyrir þeim hræðsluáróðri sem hér hefur dunið á þjóðinni hingað til. Kalda matið, það var enginn fótur fyrir þeim fullyrðingum, enginn. Af hverju skyldu aðilar sem höfðu svo rangt fyrir sér aftur og aftur, Kúba norðursins, frostaveturinn mikli, stóru orðin flugu um sali Alþingis, af hverju ættu þessir aðilar að hafa áfram rétt fyrir sér? Á hverju byggist afstaða þeirra? Engum gögnum, þeim bara finnst þetta, það hljóti bara að vera.

En skoðum það að láta reyna á málið fyrir dómstólum vegna þess að þar liggur afstaða þeirra margra sem ætla sér að samþykkja Icesave-málið, til að mynda stórs hluta Sjálfstæðisflokksins. Þeir segja og eru sammála greiningu minni um að það séu meiri líkur en minni á að við munum vinna málið. Ég get ekki skilið annað úr áliti þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sitja í fjárlaganefnd en að þeir telji að við mundum vinna málið. En þeir segja að ef við mundum tapa væri áhættan svo mikil. Förum aðeins yfir þau gögn sem liggja fyrir vegna þess að fjárlaganefnd fékk álit fjögurra lögmanna til að fara yfir nokkur atriði, t.d. hvað tæki við ef samkomulag um Icesave væri ekki staðfest og hvert sé mat þeirra á dómstólaleiðinni, kostum og göllum.

Í fyrsta lagi segja þeir á bls. 2 um skuldbindingu Íslendinga, þ.e. hvort þeir ættu að greiða eða ekki, með leyfi forseta:

„Mál þetta yrði væntanlega höfðað hér á landi en þó er ekki útilokað að málið yrði höfðað fyrir erlendum dómstól.“

Málið yrði væntanlega höfðað hér á landi. Það er þeirra mat, orðrétt mat þeirra þó að þeir útiloki ekki annað. En eigum við þá ekki að gefa okkur að það sé þá þannig ef þessir fjórir lögspekingar komast að þeirri niðurstöðu. Eigum við ekki að leyfa líkunum aðeins að fá að njóta sín.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi í andsvörum að líkur væru á því að dómur um fullar endurgreiðslur á Icesave og öllu biksinu mundi ganga þannig að Íslendingar yrðu látnir greiða miklu meira en þeir mundu þó greiða samkvæmt þessum samningi. Með leyfi forseta, segir á bls. 4:

„Ólíklegt verður að telja að dómur um fulla endurgreiðslu gangi þrátt fyrir að röksemdir um að yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um að full trygging innlendra innstæðna feli í sér mismunun á grundvelli þjóðernis hafi þar nokkurt vægi.“

Þessir fjórir lögspekingar segja að dómur um fullar endurgreiðslur sé afar ólíklegur en samt er þetta ein af meginröksemdafærslu meiri hlutans á Alþingi fyrir því að samþykkja eigi málið. Það eru engar líkur á þessu. Röksemdafærslan fellur einfaldlega um sjálfa sig.

Þá kemur að því mati þeirra hvað geti gerst hjá Íslendingum ef svo illa færi að málið tapaðist, og nú er ég bara að tala um mál sem yrði höfðað um þessar 20.887 evrur sem allar líkur eru á að málið mundi fjalla um, en þeir telja að miklar líkur séu á því að málið vinnist. En ef við mundum tapa? Hér eru sjö línur, þrjár og hálf lína fjalla um að auðvitað væri það frábært fyrir Íslendinga að málið ynnist. Hér segir þó, með leyfi forseta:

„Ókostirnir eru aftur á móti þeir að málið gæti tapast sem mundi að öllum líkindum setja Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og gæti“ — ég vek athygli á orðinu gæti — „leitt til óhagstæðari niðurstöðu.“

Þeir eru ósammála um þetta mat og orða það mjög varfærnislega. Þrátt fyrir þessar þrjár línur leyfir meiri hlutinn sér og stór hluti Sjálfstæðisflokksins að halda því fram fullum fetum að það sé bara þannig að ef við mundum tapa málinu, þó að litlar líkur séu á því, þá geti það haft svo alvarlegar afleiðingar í för með sér að það sé verra fyrir Ísland.

Gerum þá eitt. Ég held að menn gætu verið mjög fljótt sammála um að þetta mat á því hvað gerðist ef við mundum tapa sé ófullnægjandi af þessum fjórum aðilum og kannski líka í ljósi þess að þeir eru ósammála um niðurstöðuna. Hvað gerum við þá? Jú, við óskum einfaldlega eftir því að færustu sérfræðingar komi fyrir fjárlaganefnd og þeir verði fengnir til að meta þessa áhættu. Er það ekki sjálfsögð krafa í lýðræðislegu samfélagi sem ætlar að taka ákvarðanir á ítarlegum upplýsingum og eins góðum og völ er á? Meiri hlutinn hafnaði því og ekki var mikla hjálp að hafa frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Af hverju vilja menn ekki kanna þetta til hlítar? Gæti verið að niðurstaðan væri óþægileg, hún mundi eyðileggja málatilbúnað þeirra sem vilja að Icesave sé samþykkt? Getur verið að komin sé upp sama staða og var í upphafi málsins þegar meiri hlutinn ákvað að setja gögn í leynimöppur, segja ekki alla söguna þannig að almenningur gæti ekki metið þetta sjálfur? Gæti það verið? Ég velti því fyrir mér.

Ég held reyndar, ef menn mundu aðeins setjast niður og velta þessu fyrir sér, að það versta sem gæti gerst ef við færum í mál væri einfaldlega það að við sætum uppi með sömu samninga og við sitjum með í dag. Af hverju skyldi ég leyfa mér að fullyrða það? Jú, vegna þess að samningarnir, sem eru þó miklu betri en þeir sem stóð til að samþykkja á Alþingi, eru óhagstæðari fyrir Íslendinga en fyrir Hollendinga og Breta. Ef þetta væru samningarnir sem við hefðum fengið í upphafi og öll gögn hefðu verið lögð fram mundu færustu sérfræðingar landsins segja: Nei, það gengur einfaldlega ekki að öll efnahagsleg áhætta Íslendinga sé á þeirra herðum.

Bretar og Hollendingar gerðu líka mistök, þeir settu á okkur hryðjuverkalög. Það leikur verulegur vafi á því hvort við eigum að borga eða ekki. Svo á íslenskur almenningur að bera alla áhættuna á efnahagslegum þáttum málsins. Ég er hræddur um að þetta hefði orðið staðan ef þetta hefðu verið þeir samningar sem við hefðum fengið hér á borðið.

Hver er þessi efnahagslega áhætta? Við búum við gjaldeyrishöft sem ég held að flestir séu sammála um að séu ekki af hinu góða nema þá í því ástandi sem við erum í í dag. Hér liggja enn um 500–600 milljarðar inni á jöklabréfum í Seðlabankanum. Enginn forði er til að mæta því ef þeir mundu streyma út úr landinu og þess vegna verðum við að hafa gjaldeyrishöft.

Ef gjaldeyrishöftunum yrði aflétt, hvað mundi það þýða fyrir Icesave-samningana? Jú, það mundi þýða það að gengið mundi væntanlega falla mjög hratt, það má leiða að því líkur þar sem aflandsgengið er mun óhagstæðara en það sem er í dag, genginu er haldið uppi af Seðlabankanum. Um leið mundu greiðslur út af Icesave stóraukast. Þá mundi maður halda að ef gengið mundi styrkjast yrði það Íslendingum til tekna. Er það ekki þannig? Nei, það er ekki þannig. Það skiptir í raun sáralitlu fyrir Íslendinga þó að gengið mundi styrkjast.

Hv. formaður fjárlaganefndar nefndi að greiningaraðilar hefðu skilað skýrslum. Af hverju vísar þá ekki meiri hlutinn í þessar skýrslur GAMMA og IHF-greiningar, sem segja beint út að ef Icesave-samkomulagið verður samþykkt þýði það að við komum til með að búa við gjaldeyrishöft til lengri tíma.

Seðlabankinn er reyndar á annarri skoðun, en er hann marktækur í Icesave-umræðunni? Öll þau álit sem þaðan hafa komið hafa verið Seðlabankanum til skammar, svo að það sé sagt hér algjörlega hreint út. Þær greiningar sem hafa komið hafa fallið um sjálfar sig daginn eftir. Nú hefur Seðlabankinn tekið saman skýrslu þar sem loksins er farið yfir skuldastöðu þjóðarinnar — hún liggur fyrir í drögum sem voru kynnt þingmönnum fjárlaganefndar í gær sem trúnaðarmál, það stendur ekki til að birta þá skýrslu fyrr en búið er að samþykkja Icesave.

Af hverju skyldi það vera? Gæti verið að í þeirri skýrslu komi fram að við sem bentum á að skuldastaða þjóðarinnar væri mun verri í lok árs 2008 eða í upphafi árs 2009 en áður hafði verið talið hefðum haft rétt fyrir okkur? Við bentum á það á sínum tíma að skuldastaða þjóðarinnar væri orðin svo alvarleg, hún væri orðin yfir 210% af vergri þjóðarframleiðslu. Hvað hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt þegar skuldastaðan er slík? Jú, hann hefur metið það á þann veg að þjóðir sem þannig er ástatt um séu tæknilega gjaldþrota.

Af hverju er þessi skýrsla ekki lögð fram? Af hverju gefum við fjárlaganefnd ekki tvo til þrjá daga til að almenningur og fjölmiðlar landsins fái að kynna sér skýrsluna, til að þeir fjölmörgu sérfræðingar sem áhuga hafa á málinu geti komið með álit sitt? Ég hafði engin tök á því, ekkert frekar en hv. þm. Þór Saari, að lesa þessa skýrslu í þaula og fara yfir hana jafnítarlega og ég hefði viljað gera. Við höfðum ekki hugmynd um að taka ætti málið út í gær með hraði og hefja umræður hér í dag. En því miður, hæstv. forseti, ber allt að sama brunni.

Af hverju skyldi sá sem hér stendur ætla að segja nei við frumvarpinu? Ég hef komið fram og sagt að samningarnir séu miklu betri, þeir eru það, það ber að viðurkenna. Þeir eru það bara vegna þess að hinir fyrri voru svo slæmir að allt það sem hefði komið í kjölfar þeirra hefði litið jafn vel út og sá samningur sem við erum að ræða hér á Alþingi. Fyrri samningunum hefur einfaldlega verið lýst sem einhverjum þeim verstu í sögu vestrænna þjóða. Við hvað hafa þeir verið miðaðir? Þeir hafa verið miðaðir við Versalasamningana sem voru gerðir í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Menn ætla að þeir hafi leitt af sér seinni heimsstyrjöldina vegna þess hversu ósanngjarnir þeir voru. Það þarf nú ekki mikið til til að aðrir samningar teljist töluvert betri.

Þá komum við að því hvort við eigum að láta reyna á málið fyrir dómstólum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar, ásamt fjölmörgum sérfræðingum sem hafa tjáð sig um það atriði, að meiri líkur séu á því en minni að við munum vinna það mál. Það eitt ætti að nægja fyrir flesta til að láta reyna á réttarstöðu sína, sérstaklega þegar um jafnmikla hagsmuni er að tefla.

Gott og vel. Það má fallast á að einhverjar líkur séu á því að málið tapist ef við gefum okkur að Bretar og Hollendingar vilji fara með málið fyrir dóm, en margir hafa bent á að það sé einmitt það sem þeir ættu síst af öllu að vilja. Það hefur nefnilega miklu verri afleiðingar fyrir þá að tapa málinu en fyrir Íslendinga. Það hefur aldrei verið tekið með í reikninginn. Mundu Bretar og Hollendingar treysta sér í dómsmál? Þeirri spurningu hefur ekkert verið velt upp í þessu máli. Ég held nefnilega að Bretar og Hollendingar vilji alls ekki fara í mál. Innstæðutryggingarkerfi Evrópu er jú í húfi, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. En gott og vel, málið gæti tapast.

Hvað þá? Verðum við ekki að vera með einhver gögn, einhver álit, sem rökstyðja það að hlutirnir gætu farið á versta veg? Það er ekki fyrir hendi, virðulegur forseti. Þegar staðan er þannig get ég ekki samþykkt samninga sem fela það í sér að við þurfum að borga háar upphæðir í fjölmörg ár; 26 milljarða þurfum við að borga á komandi dögum. Reyndar hefðum við þurft að borga 80 milljarða ef vaxtagreiðslur hefðu verið miðaðar við sama dag og var í gömlu samningunum, það munar um 55–65 milljörðum þarna, sem er nú töluverð upphæð.

Skoðum tölurnar aðeins í samhengi. Hér var skorið niður um 40 milljarða á síðasta ári. Boðaður niðurskurður í heilbrigðismálum er 4 milljarðar kr. Sá niðurskurður, upp á 4 milljarða kr., í heilbrigðismálum gerði það að verkum að boðað var til mótmæla um allt land. Við erum samt að tala um örlitla fjárhæð ef tekið er mið af öllu því sem áður hefur komið fram.

Virðulegi forseti. Ég mun koma hingað aftur í seinni ræðu og fara ítarlegar yfir það framhaldsnefndarálit sem ég samdi í gærkvöldi og fram á nótt. Mig langar að segja eitt: Íslendingar geta verið stoltir af mönnum sem hafa barist gegn þessum samningum. Þá vil ég fyrst nefna Indefence og aðila sem tengjast þeim samtökum, fjölmarga sérfræðinga og lögfræðinga sem lögðu á sig ómælda vinnu við að upplýsa hvaða mistök menn voru um það bil að gera hér inni. Þetta voru hinir raunverulegu varðmenn Íslendinga. Þetta voru mennirnir sem gera það að verkum að samningarnir eru þó mun betri en þeir sem stóð til að samþykkja hér tvisvar sinnum af hálfu meiri hluta Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Þeir eru enn að. Þeir berjast nú fyrir því að undirskriftir gegn samkomulaginu verði sem flestar þannig að við getum einfaldlega komið málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki málefni sem á að útkljá hér á Alþingi. Alþingi hefur einfaldlega sýnt af sér það slæm vinnubrögð — tökum stjórnlagaþingsmálið, það er nærtækast, tökum úrskurð Hæstaréttar um umhverfismál og um hæstv. umhverfisráðherra sem var ræddur hér fyrr í dag. Þjóðin á að eiga lokaorðið.

Gerum eitt, hv. þingmenn: Treystum þjóðinni. Hún hefur sýnt það hingað til að henni sé treystandi. Hún hefur sýnt að hún sé reiðubúin að taka jafnvel upplýstari ákvarðanir en þingmenn meiri hlutans hafa gert hér á Alþingi.