139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórðarsyni fyrir mjög góða ræðu áðan. Einu var ég þó að velta fyrir mér. Hv. þingmaður ræddi um áhættuna sem lægi í hugsanlegum málaferlum og benti réttilega á að það gæti og kæmi bara augljóslega mjög illa út fyrir Breta og Hollendinga ef þeir töpuðu þessu dómsmáli, áhættan væri miklu meiri þeirra megin en okkar og þar væri í rauninni nánast allt bankakerfi Evrópu undir. Það sem ég velti fyrir mér er þetta: Má ekki færa rök fyrir því, eins og til að mynda hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á, að Bretar og Hollendingar muni bara alls ekki vilja að þetta mál fari fyrir dómstóla, vegna þess í fyrsta lagi að sé meðferð málsins fyrir dómstólum og það sé vafi um innstæðutryggingarnar væri það mjög óheppilegt, og hins vegar sé ljóst að báðar niðurstöður, hvor niðurstaðan sem yrði, hvort sem Bretar og Hollendingar töpuðu eða ynnu málið, gæti komið mjög illa út fyrir þessa aðila. Með því er átt við að ef þeir vinna málið og íslenska ríkið er dæmt til að ábyrgjast allar þessar innstæður í sínu bankakerfi sé verið að segja að öll Evrópuríkin beri ábyrgð á öllu sínu bankakerfi. Það þýðir að lönd eins og Spánn, sem standa svolítið tæpt er held ég óhætt að segja, ríkissjóður þess lands væri allt í einu búinn að fá þann skell að til viðbótar við allar skuldirnar hvíli allt bankakerfi Spánar, sem er reyndar í miklum vandræðum, á spænska ríkinu. Þannig yrði komin upp sú sérkennilega staða að hér sé ríkisstjórn Íslands að viðhalda miklum hræðsluáróðri um hugsanleg málaferli, málaferli sem henta Bretum og Hollendingum alls ekki vegna þess að báðar niðurstöðurnar eru sérstaklega óheppilegar fyrir þá aðila.