139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við fyrri spurninguna, af hverju Bretar og Hollendingar hafi ekki tekið 50 milljarða eingreiðslutilboði, er að ég var ekki í samninganefndinni og þekki það ekki en reikna með að þeir menn sem samningamennirnir töluðu við hafi verið sömu embættismennirnir og áður. Þeir menn ætluðu bara að geta skrifað til yfirboðara sinna að þeir hefðu náð hverri einustu evru og hverju einasta pundi. Það var málið. Þeir höfðu engan áhuga á að létta byrðum af íslenskri þjóð. Þeir höfðu bara áhuga á að ná sínum pundum og sínum evrum og sínum vöxtum líka. Ég hugsa að það sé ástæðan fyrir því að þeir voru ekki tilbúnir til að taka við 50 milljarða eingreiðslu. Ég hefði verið mjög feginn þeirri niðurstöðu. Það hefði verið mér létt, jafnvel að staðgreiða það.

Seinni spurningin sem var, ég er búinn að gleyma henni … (VigH: 2030, 2046.) Já, það er vegna þess að þeir reikna með því að það geti hent íslenska þjóð að vera að borga þetta svona gífurlega lengi vegna þess að efnahagslegu fyrirvararnir haldi illa og að við munum lenda í miklum vandræðum á alla máta í þessu dæmi, að búið muni ekki gefa eins mikið og reiknað er með og að einhver áföll komi. Það gerist yfirleitt þannig að það slær til með líkurnar. Stundum er það plús en oftar mínus. Þeir reikna með að það geti komið einhver mínus sem geri það að verkum að nauðsynlegt verði að kreista íslenska þjóð til ársins 2046. Þeir vilja bara ná í hverja einustu evru og hvert einasta pund. Það held ég að hafi bara verið markmiðið. Og þeim tekst það með þessum samningi.