139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá upprifjun á þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur komið með til landsins og þeim mönnum sem stóðu fyrir því. Nú gerir ríkisstjórnin í þriðja sinn tilraun til að koma skuldum óreiðumanna yfir á herðar Íslendinga.

Ríkisstjórnin hefur ekki séð ástæðu til að segja af sér hingað til. Ráðherra í ríkisstjórninni fékk á sig hæstaréttardóm í síðustu viku. Ekki dettur hæstv. umhverfisráðherra í hug að segja af sér þrátt fyrir það. Svo virðist vera sem hér sitji ríkisstjórn sem ekki þarf að fara að lögum. Svo virðist vera sem ríkisstjórnin, velferðarvinstristjórnin, sé hafin yfir lög. Sumir sem komast til valda og verða ráðherrar þurfa ekki að fara eftir lögum frá Alþingi, frá löggjafanum, því að þeir telja sjálfa sig uppsprettu valdsins og að þeir þiggi jafnvel vald sitt frá guði, eins og kennt er í lögfræðinni. Það er hinn mesti misskilningur.

Ríkisstjórnin var, eins og ég kom inn á í ræðu minni, hrakin til baka með stjórnlagaþingið. Ráðherrum ríkisstjórnarinnar datt ekki í hug að segja af sér í það sinn. En því get ég lofað, þegar fleiri undirskriftir eru komnar í undirskriftasöfnunina á kjósum.is, og hvet ég alla til að skrifa undir, og forseti Íslands hefur vonandi neitað að skrifa undir lögin á grunni 26. gr. stjórnarskrárinnar og þjóðin hefur fellt samninginn aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef ríkisstjórnin fer ekki frá þá skal ég persónulega standa fyrir því að lýsa yfir vantrausti á hana. Þingmaðurinn má vera viss um það.