139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sagan hafi sýnt okkur að það sé býsna ólíklegt að Bretar og Hollendingar vilji fara með málið fyrir dóm. Ef þeir væru mjög áfjáðir í það og teldu stöðu sína sterka væru þeir fyrir löngu búnir að stefna okkur. Mér finnst það blasa við. Ástæðan fyrir því að þessar þjóðir vilja ekki draga okkur fyrir dómstóla er auðvitað sú sem hv. þingmaður nefndi. Þeir vilja ekki grafa undan trausti bankakerfisins í Evrópu. En ef farið yrði undir einhverjum kringumstæðum í dómsmál þá spyr hv. þingmaður hvort Íslendingar þyrftu að greiða meira en þessi samningur kveður á um ef Íslendingar mundu tapa málinu. Ég get í sjálfu sér ekkert fullyrt um það en hins vegar er alveg ljóst að með þeim samningum sem verið er að fjalla um hér og við þurfum að taka ákvörðun um hvort við eigum að samþykkja eða ekki (Forseti hringir.) er fallist á höfuðstól kröfunnar. Væri fjárkrafan hærri efast ég um að hún yrði miklu hærri (Forseti hringir.) en samningar mæla fyrir um.