139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú þegar ég stíg í ræðustól klukkan korter yfir tvö eftir miðnætti eru undirskriftirnar orðnar 27.827. Ég hef gert samning við samþingmann minn, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, um að koma með töluna hingað til mín áður en ég lýk máli mínu því að það hrúgast inn undirskriftir. Þetta er frábært. Þátttakan er góð jafnvel þó að það sé mið nótt sem sýnir að Íslendingar eru svo sannarlega að fylgjast með. Við höfum fengið kveðjur alls staðar að úr heiminum þannig að það fólk fylgist með í gegnum fjölmiðla og aðra miðla. Það er svo sannarlega búið að kveikja vonina á ný hjá þjóðinni um að hægt sé að stoppa þetta mál og að forsetinn beiti 26. gr. stjórnarskrárinnar á þann hátt að vísa málinu til þjóðarinnar, enda er málið svo sannarlega hjá þjóðinni því að mínu mati fer ríkisstjórnin algjörlega umboðslaus með þetta mál þar sem ekki voru alþingiskosningar á milli afgreiðslna.

Mig langar að fara aðeins yfir tölulegar staðreyndir svo að allir átti sig á því hvað við erum að tala um stórar upphæðir. Verði Icesave-samningurinn samþykktur á morgun og ef forseti Íslands skrifar undir lögin í kjölfarið gjaldfalla strax 26 milljarðar sem eru uppsafnaðir vextir frá því í október 2009 til dagsins í dag. Af þeim 26 milljörðum eru 20 milljarðar í innstæðutryggingarsjóðnum en 6 milljarðar kæmu beint úr ríkissjóði. Að auki væru vextir ársins 17 milljarðar þannig að ríkissjóður og hæstv. fjármálaráðherra, haldi hann embætti sínu, mundi reiða af hendi — hann lætur sér ekki svo lítið að sitja hér með okkur í nótt og ræða þetta — samtals 39 milljarða í vexti á árinu 2011, af þeim kæmu 26 milljarðar beint úr ríkiskassanum. Þetta eru svo stórar upphæðir. Þarna stendur hv. varaformaður fjárlaganefndar, ég hvet hann til að koma í andsvar við mig og segja þingi og þjóð hvað niðurskurðarupphæðin var há sem farið var með í gegnum þingið fyrir jól. Þetta er hreinlega allur niðurskurðurinn. Hvar ætlar ríkisstjórnin að finna þessa peninga? Það þýðir ekki að borga skuldir með lánsfé.

Á gjalddaga á árinu 2011 eru 154 milljarðar sem Seðlabankinn situr uppi með eftir míníkrísuna 2006. Þá var slegið lán til framtíðar til fimm ára til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans til að bankarnir gætu haft þann bakhjarl sem Seðlabankinn átti að vera. Lánið er á gjalddaga árið 2011. Svo er látið í það skína að hér sé allt í himnalagi í ríkisbúskapnum.

Þetta eru upphæðirnar sem við erum að fást við. Þetta er sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að Landsvirkjun telur sig ekki geta komist af stað með Búðarhálsvirkjun sem kostar 26 milljarða. Það er nákvæmlega sama upphæð og vaxtagreiðslur ríkissjóðs verða ef Icesave-lögin verða samþykkt. 26 milljarðar fara til Bretlands og Hollands verði þessi lög samþykkt í stað þess að leggja þá inn hjá Landsvirkjun til að Búðarhálsvirkjun geti farið í framkvæmd og atvinnulífið fari að blómstra hér á landi.

Frú forseti. Þetta mál er keyrt áfram með gamalkunnum hræðsluáróðri sem beitt hefur verið í öllum Icesave-málunum. Það er mikil meðvirkni í kringum málið. Því miður virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekkert hafa lært af hruninu.

Nú er tími minn búinn. Það sem stendur upp úr er, (Forseti hringir.) með leyfi forseta, 27.841 undirskrift. Það söfnuðust 13 undirskriftir á meðan ég talaði (Forseti hringir.) í 5 mínútur. Íslendingar, höldum áfram að skrifa nöfnin okkar á kjósum.is!