139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hálfmiður mín fyrir hönd þjóðarinnar eftir orð hæstv. utanríkisráðherra í ræðustólnum áðan er hann kom upp og taldi að um langtum betri samning væri að ræða, langtum lægri vexti og þjóðaratkvæðagreiðsla mundi jafnvel ekki hafa áhrif til betri samninga. Hér er um að ræða ólöglegar og ólögvarðar kröfur. Þetta snýst ekki um betri eða verri samning, þetta snýst um það að ekki er lagastoð fyrir því að íslenskir skattgreiðendur taki þessar byrðar á sig.

Hér er lagt til að komandi kynslóðir verði skuldbundnar til að taka þessa greiðslur á sig til ársins 2046. Það barn sem fæðist í dag verður 35 ára þegar síðasti greiðsludagur rennur út. Ríkisstjórnin er umboðslaus í þessu máli, valdið liggur hjá þjóðinni, þjóðin á að velja hvort skattgreiðendur framtíðarinnar beri þessar byrðar. Því segi ég já.