139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að byrðar hrunsins eru þungar á herðum íslensks almennings og þjóðarinnar allrar. Þær þurfum við að axla í sameiningu hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Þegar forseti lýðveldisins synjaði samningi staðfestingar 5. janúar 2010 gerði hann það með tvenns konar rökum; að það væri gjá á milli þings og þjóðar og að sá gjörningur mundi bæta samningsstöðuna. Um þá ákvörðun forsetans féllu mörg þung orð, m.a. frá þeirri sem hér stendur. Ég hygg hins vegar að nú rúmu ári síðar hafi þess gjá verið brúuð og náðst hafi samningur sem er viðunandi í þessu ömurlega máli. Við hann þurfum við að búa, hann þurfum við að styðja og það skulum við gera í dag. Honum þarf ekki að vísa til þjóðarinnar, við klárum þetta hér. Ég segi nei við þessari tillögu.