139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[15:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að maður er hálfpartinn eftir sig eftir þá atburði sem áttu sér stað í atkvæðagreiðslunni fyrr í dag þar sem Icesave-málið var samþykkt með svo afgerandi meiri hluta. Það er um að gera að hamra járnið á meðan það er heitt. Hér kem ég með fyrirspurn til hv. formanns utanríkismálanefndar, Árna Þórs Sigurðssonar, vegna þess að svo virðist sem þingsályktunartillaga sem ég lagði með fleiri þingmönnum fram á haustdögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins sé föst í utanríkismálanefnd. Tillagan var lögð fram í haust og gekk upphaflega út á að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla mundi fara fram á sama tíma og kosið yrði til stjórnlagaþings. Örlögin höguðu því þannig sem betur fer að tímamörk voru of þröng þegar tillagan kom fram því að það hefði verið skelfilegt hefði þessi þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram á sama tíma og hin mislukkaða stjórnlagaþingskosning ríkisstjórnarinnar sem nú hefur verið úrskurðuð ógild af Hæstarétti. Það segir sig sjálft að hefðu farið fram fleiri atkvæðagreiðslur þennan dag hefðu þær að sjálfsögðu verið dæmdar ógildar líka vegna galla í kosningunum sjálfum.

Ég lagði fram þá breytingartillögu á sínum tíma að þjóðaratkvæðagreiðslan skyldi fara fram ekki seinna en 28. maí 2011 og þar sem þetta er þjóðaratkvæðagreiðslutillaga sem er ekki bundin í stjórnarskrá eru tímamörkin í henni þrír mánuðir. Það verður því að koma þessu máli út úr utanríkismálanefnd. Í síðasta lagi 28. febrúar þarf að afgreiða tillöguna út úr þinginu. Hún er fullburða og tilbúin í utanríkismálanefnd, þetta er þingsályktunartillaga og þarf einungis tvær umræður þannig að það er einungis ein umræða eftir í þingsal og þá getum við komið þessu máli af stað. Við vonum að forsetinn vísi Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá getum við tekið þessi tvö mál saman.

Ég spyr því hv. formann utanríkismálanefndar: Af hverju er ekki löngu búið að afgreiða málið út úr utanríkismálanefnd? (Forseti hringir.) Ef einhverjar ástæður eru til staðar sem eru tækar hér í þingsal, hvenær á þá (Forseti hringir.) tillagan að koma út og fá hér þinglega meðferð?