139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

innlend framleiðsla innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.

294. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um framleiðslu innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni hér á landi. Meðflutningsmenn að tillögunni eru ásamt mér hv. þm. Þuríður Backman, Siv Friðleifsdóttir, Björn Valur Gíslason, Álfheiður Ingadóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Í tillögunni felst að fela heilbrigðisráðherra að kanna hagkvæmni þess að hefja að nýju framleiðslu innrennslisvökva hér á Íslandi í lækningaskyni. Það vill þannig til að árið 2002 var framleiðslu innrennslisvökva hætt hér á landi sem áður hafði verið á hendi Lyfjaverslunar Íslands og þar á undan Lyfjaverslunar ríkisins. Þessi framleiðsla hafði reynst afar farsæl í gegnum tíðina og gengið mjög vel og töluverð ánægja var innan lands með notkun vökvanna og framleiðslu þeirra. Það gerist síðan á þessu ári, þ.e. árið 2002, að framleiðslu er hætt í kjölfar þess að gert er útboð þar sem ákveðið er að kaupa vökvana að utan. Fljótlega eftir þá breytingu vöknuðu spurningar hjá mörgum í heilbrigðisgeiranum, hvort virkilega væri hagkvæmt að flytja inn vatn í tonnavís til Íslands, vatn sem áður hafði verið hægt að framleiða hér.

Í kjölfar þeirrar umræðu er árið 2005 birt skýrsla starfshóps á vegum Landspítala sem er fylgiskjal með þessari tillögu þar sem helstu álitamál eru reifuð og möguleikar á að framleiða vökva hér innan lands. Í niðurstöðunni kemur m.a. fram að innflutningur á innrennslisvökvum á vegum stofnana ríkisins nam þá eitthvað yfir 200 þúsund lítrum á ári og þegar saman eru taldir bæði innrennslis- og skolvökvar eru eftir um 100 þúsund lítrar af skilunarvökva sem eru líka fluttir inn.

Í skýrslunni er m.a. komið inn á þörfina fyrir aukna framleiðslu eða aukna framleiðslugetu ef sérstök áföll verða, til að mynda eldgos, náttúruhamfarir eða eitthvað þess háttar, eða að upp komi skæðar pestir innan lands sem krefjast þá tímabundið meiri notkunar vökvanna en ella væri.

Birgðahald á svona vökvum er mjög erfitt, virðulegi forseti, og kannski sérstaklega þegar horft er til þess að notkunarþörfin getur breyst mjög hratt. Ýmsir smitsjúkdómar geta t.d. valdið mjög miklu vökvatapi og ef þeir breiðast hratt út og til margra einstaklinga getur vökvaþörfin gjörbreyst á örskömmum tíma. Það sama á til að mynda við um ýmsar veirusýkingar eins og inflúensu eða aðra sjúkdóma sem geta breiðst hratt út og valdið háum hita og þar með aukið vökvaþörfina.

Áhætta er fólgin í því að framleiða vökvana ekki hér. Ef áföll verða, hér væru alvarlegir smitsjúkdómar í gangi, og það færi t.d. saman við það að erfitt væri með samgöngur til landsins gætum við fljótt staðið frammi fyrir því að eiga tiltölulega litlar vökvabirgðir í landinu án þess að geta með nokkru móti brugðist við aukinni þörf nema þá með skipaflutningum sem getur verið seinlegt.

Þetta er kannski helsta öryggisástæðan fyrir því að skynsamlegt sé að hafa a.m.k. möguleikann á framleiðslunni hér innan lands. Og ef við ætlum að koma okkur þeim möguleika upp er í rauninni engin skynsemi í öðru en að fara þá leið að framleiða vökvana sjálf. Það yrði náttúrlega alltaf þannig að tilteknir sjaldgæfari vökvar eða lyfjablöndur yrðu ekki framleiddar hér á Íslandi, bæði vegna þess að kostnaður af því yrði ótæpilega mikill miðað við notað magn en engu að síður yrði eitthvað af þessum stöðluðu lyfjablöndum væntanlega framleitt hér eins og var raunar gert áður.

Í skýrslunni sem ég gat um áðan er komið inn á kostnað en vegna breyttra gengisforsendna er væntanlega ekki hægt að byggja á þeim tölum lengur, það yrði a.m.k. að uppreikna þær. Það var hins vegar mat skýrsluhöfunda á þeim tíma að framleiðslan í fjögur ár væri nokkurn veginn jöfn á við stofnkostnað einu sinni. Með því að gera þessa framleiðslu innlenda mundum við væntanlega einnig spara töluverðan gjaldeyri sem ekki er vanþörf á, fyrir utan að störf mundu skapast í heilbrigðisþjónustu en þeim hefur því miður fækkað undanfarin ár. Þarna væri hægt að grípa inn í þá þróun.

Þess má líka geta að heilbrigðisstofnanir og það sem við getum kallað heilbrigðisaðstaða er hér í námunda við suðvesturhornið, bæði hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Heilbrigðisstofnuninni á Suðurnesjum, og á gamla varnarsvæðinu er húsnæði og jafnvel góð aðstaða til að fara í slíka framleiðslu, í húsnæði sem ekki er verið að nota til annars.

Ég tel skynsamlegt að fela velferðarráðherra að setja af stað rannsókn í þessu tilliti, þ.e. að meta öryggisþættina sérstaklega, efnahagslegu þættina sérstaklega og heilsufarslega þætti sérstaklega. Eins og kemur fram í skýrslunni, sem er fylgiskjal, hefur þegar farið fram nokkur vinna og hægt að styðjast við hana. Slík athugun þyrfti ekki að verða sérstaklega kostnaðarsöm en það ætti að vera töluvert mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að geta framleitt þessa vökva. Í því sambandi má benda á að Færeyingar framleiða stóran hluta af þeim innrennslisvökvum sem þeir nota þannig að tæknilega og út frá stærðarhagkvæmni ætti það ekki að vera frágangssök að leggja í þessa vinnu.

Ég legg til að málinu verði vísað til heilbrigðisnefndar þar sem færi mun gefast á að ræða það ítarlega. Ég mun einnig taka þátt í umræðunni þar.