139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Okkur er í sjálfsvald sett hvort við viljum breyta lögum eða reglum þannig að það sé í takt við eitthvað sem gerist annars staðar, hvort sem það er innan Evrópusambandsins eða annars staðar í heiminum. Við ákváðum hér á síðasta ári að breyta lögum um dómstóla sem gerði það að verkum að draga úr valdi dómsmálaráðherra til að ráða því hverjir yrðu skipaðir dómarar við íslenska dómstóla og setja ákveðnar hæfnisnefndir inn í það. Það var reyndar ábending sem kom frá Evrópusambandinu um að það væri eitthvað sem Íslendingar þyrftu að gera. Það má auðvitað spyrja: Var það aðlögun? Það var bara sjálfstæð ákvörðun okkar á þeim tíma að við vildum gera þær breytingar á verklaginu við skipan dómara. Þá ákvörðun getum við að sjálfsögðu tekið í hverju öðru máli. Við aðlögum íslenska löggjöf að regluverki Evrópusambandsins gegnum EES-samninginn á hverju einasta þingi, margar tillögur eða mörg frumvörp koma fram þar að lútandi þannig að það gerum við oft.

Hvað varðar þessar aðildarviðræður er samkvæmt mínum skilningi, og því hefur aldrei verið mótmælt þegar ég hef haldið þessu fram á vettvangi viðræðna sem ég hef átt við kollega mína og embættismenn Evrópusambandsins, ekki um að ræða fyrir fram aðlögun. (Forseti hringir.)

Það liggur fyrir áætlun um það hvernig við mundum uppfylla (Forseti hringir.) skilyrði aðildar að Evrópusambandinu með tilliti til samningsniðurstaðna að sjálfsögðu, því að þar kunna að vera sérlausnir sem gefa lengri aðlögunartíma. (Forseti hringir.) Það er það sem þarf að liggja fyrir áður en viðræðum lýkur en ekki að breytingarnar hafi tekið (Forseti hringir.) gildi.