139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu mitt mat, eins og margoft hefur komið fram, að það ferli sem nú er í gangi sé á engan hátt samrýmanlegt þeirri ályktun sem flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti. Það lýsir sér best í því — og hlustaðu nú hv. þingmaður — að hér í þingsal var flutt breytingartillaga samhljóða tillögu þeirri sem samþykkt var af flokksþingi framsóknarmanna. Sú tillaga var felld. Þá var flutt önnur tillaga og samþykkt hér á þinginu og sú tillaga er allt öðruvísi en sú tillaga sem samþykkt var á flokksþingi framsóknarmanna. Þar af leiðandi getur það ekki staðist að það ferli sem er í gangi uppfylli þau skilyrði og þær skyldur sem við þingmenn flokksins fengum, að mínu mati, frá okkar flokksþingi.

Hvað þyrfti að gera? Ef fara ætti eftir því sem flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti þarf að hætta þessu ferli strax, sem við erum að leggja til, og byrja upp á nýtt. En ég er hins vegar búinn að átta mig á því að það ferli sem Evrópusambandið býður upp á er óumsemjanlegt. Við göngum inn í forskrift sem við fylgjum og það hefur komið fram hér í dag í ræðum og það er bara þannig.

Framsóknarflokkurinn lagði hins vegar, með ályktun sinni, áherslu á að ákveðin skilyrði væru fyrir því að fara í þessar viðræður. Menn geta haft alls konar skoðanir á því hversu skynsamlegt það er og allt það, það var hins vegar ekki gert. Þar af leiðandi getur þetta ferli ekki uppfyllt þá ályktun sem samþykkt var á flokksþingi framsóknarmanna.

Ég ítreka því að ég er mjög svekktur yfir því að það skuli vera túlkað á þann veg að þetta uppfylli þá samþykkt sem Framsóknarflokkurinn gerði á flokksþingi sínu því að það er mjög skýrt hvernig það var orðað. Það er einnig mjög skýrt í skjölum þingsins hvernig sú tillaga hljómar vegna þess að hún var flutt hér. Ef hún hefði hins vegar verið samþykkt stæði ég ekki hér og væri að ræða þetta, þá væri ég að sjálfsögðu að fylgja þeirri samþykkt sem flokksþingið gerði.