139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það gleymist oft í lýðræðisumræðum Samfylkingarinnar að Alþingi Íslendinga fer með stjórnskipunarvaldið og Alþingi eitt getur breytt stjórnarskrá. Það fer fram með þeim hætti að frumvarp er lagt fram á Alþingi og 63 þingmenn samþykkja frumvarpið. Í kjölfarið er boðað til alþingiskosninga og svo er frumvarpið lagt fyrir nýtt Alþingi. Hefði verið um stjórnarskrárbreytingar að ræða í síðustu alþingiskosningum hefðu 90 þjóðkjörnir alþingismenn komið að þeim stjórnskipunarbreytingum.

Því langar mig til að varpa fram nokkrum spurningum til hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að Hæstiréttur hefur úrskurðað stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Hæstiréttur dæmdi kosningarnar ógildar og þar sem ekki er ákvæði í lögunum um stjórnlagaþing að kjósa megi aftur voru kosningarnar dæmdar ólöglegar. Þar reynir á svokallað eyðuákvæði, það er ekki lagaheimild að baki um að halda megi kosningarnar aftur þannig að sú leið er ófær. Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra vinda ofan af vitleysunni varðandi stjórnlagaþingið? Hvað verður um starfsfólkið sem búið er að ráða og situr nú aðgerðalaust þar sem kosningarnar voru dæmdar ógildar? Hvað verður um húsnæðið sem búið var að leigja og hver er kostnaðurinn sem nú þegar er fallinn á stjórnlagaþingið og umgjörðina í kringum það allt frá samþykkt laganna?

Mig langar til að fá upplýsingar um það. Einkum vil ég fá svar við þeirri brýnu spurningu: Hvað ætlar forsætisráðherra að gera í málinu?