139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

uppbygging í atvinnumálum.

[10:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í máli tveggja þingmanna Samfylkingarinnar í gær kom í ljós að það eru himinn og haf á milli þingmanna Samfylkingarinnar þegar kemur að uppbyggingu í atvinnumálum. Það kom reyndar líka fram að eina sameiningartákn Samfylkingarinnar hvað þá kvöð varðar er forseti Íslands. Ég ætla ekki að fetta fingur út í það en mér finnst það hins vegar segja margt um bágborna stöðu Samfylkingarinnar hvað varðar uppbyggingu í atvinnumálum.

Ég sit í svonefndum samráðshóp um atvinnumál. Þeir sem segja að niðurstaða sáttanefndar í sjávarútvegi sé ekki skýr vilja bara þvælast fyrir, þeir vilja ekki fá niðurstöðu í það mál. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að komist samráðshópurinn að þeirri niðurstöðu að fara eigi í að nýta auðlindir landsins, lækka skatta eða hvað það er sem til þarf til að koma atvinnulífinu af stað aftur, verði það gert. Það er fyrri spurning mín.

Síðan vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún taki ekki undir með Samfylkingarfélaginu í Þingeyjarsýslu sem ályktaði sem svo, með leyfi forseta:

„Félagið mótmælir því ákvörðun stjórnvalda um algera friðun Gjástykkis …“ og telur „hana því ekki til þess fallna að skapa víðtæka sátt“.

Félagið leggur jafnframt áherslu á að nýta endurnýtanlegar auðlindir okkar til efnahagslegrar og samfélagslegrar uppbyggingar.

(Gripið fram í.) Vill ekki forsætisráðherra segja hvort hún tekur undir ályktun Samfylkingarinnar í Þingeyjarsýslu um að fara af stað í atvinnuuppbyggingu? Við vitum að það eru skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar. Ætlar hæstv. forsætisráðherra ekki að fara að klippa á þann streng sem leiðir til ofsatrúar öfgaaflanna og snúast á sveif með þeim samfylkingarmönnum sem vilja atvinnuuppbyggingu? Þeir eru þó nokkrir.