139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

uppbygging í atvinnumálum.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að í megindráttum væri verið að vinna í samræmi við þá niðurstöðu sem varð í stóru samninganefndinni út frá samningaleiðinni en síðan vísaði ég til þess að mismunandi skoðanir væru á útfærslunni.

Hópurinn sem hv. þingmaður nefndi er hópur um atvinnumál sem í eiga sæti fulltrúar á þingi og aðilar vinnumarkaðarins, Bændasamtökin og Samband íslenskra sveitarfélaga, hann vinnur að atvinnuuppbyggingu. Síðan er hópur sem vinnur að úrræðum í vinnumarkaðsmálum og bind ég mjög miklar vonir við niðurstöður þess hóps. Eins og fram hefur komið er það aðgerðahópur sem á að vinna eins hratt og hann getur að úrræðum og aðgerðum í þessum tveimur mikilvægu málum.

Mér finnst að á þeim fundi sem þarna var hafi verið mjög góð stemning og mjög góður upptaktur fyrir alla þá vinnu sem þar er fram undan. Auðvitað er nefndin ekki upp á punt sem ekkert á að fara eftir. Hv. þingmaður getur sagt sér það sjálf og á ekki að spyrja svona vitleysislegra spurninga eins og hún gerir hér. Auðvitað er meiningin þegar farið er af stað í jafnmikilvægt nefndarstarf og atvinnuuppbygginguna með aðild allra þessara aðila að vinna vel og dyggilega að málinu. Auðvitað verður horft til þess hvort samstaða er um málin þegar unnið er að því að koma þeim til framkvæmda. Þar geta, eins og ég sagði á fundinum, málin annaðhvort komið beint til þingsins eða til ríkisstjórnarinnar. Ég vona að hv. þingmaður fari í málið með sama hugarfari og sá stóri fjöldi sem þarna var, 20–30 manns. Það var mikil stemning þarna og áhugi á viðfangsefninu. Menn sáu mörg tækifæri og sóknarfæri í stöðunni, sérstaklega ef menn legðu (Forseti hringir.) saman krafta sína. Ég vona sannarlega að eitthvað gott og mikið komi út úr þeirri vinnu.