139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

uppbygging í atvinnumálum.

[10:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda áfram með þessar vitleysislegu spurningar. Ég veit ekki hvort við höfum verið á sama fundi, ég og hæstv. forsætisráðherra, í Þjóðmenningarhúsinu. Ég var ekki sú eina, við vorum ekki tvö, ekki þrjú og ekki fjögur sem lýstum yfir áhyggjum yfir því að þessi hópur hefði í rauninni ekkert umboð því að forsætisráðherra mundi síðan koma og strika yfir þau atriði sem henni líkaði ekki í niðurstöðu nefndarinnar. Það er ástæðan fyrir því að við drógum þetta fram. Ég held að ef menn eru svona ósammála um hver niðurstaða samninganefndarinnar er í sjávarútvegi að forsætisráðherra ætti að setjast og fá sér kaffibolla með til að mynda varaformanni nefndarinnar, Birni Val Gíslasyni. Hann er með útfærsluna alveg á hreinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. Menn þurfa bara að fara að koma sér að verki og ekki fela sig á bak við einhverjar nefndir.

Ég spurði um ályktun Samfylkingarinnar í Þingeyjarsýslu og vil fá það alveg skýrt: Er ekki hæstv. forsætisráðherra sammála þeirri ályktun og vill hún ekki leggjast á sveif með félögum sínum í Samfylkingunni sem vilja fara að vinna og stuðla að atvinnuuppbyggingu? Er hún ekki sammála því sem kemur frá flokksfélögum hennar fyrir norðan?