139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

viðbrögð stjórnvalda við díoxínmengun.

[10:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra varðandi viðbrögð stjórnvalda við díoxínmengun í nokkrum eldri sorpbrennslustöðvum á Íslandi sem almenningur hefur nú seint og um síðir fengið vitneskju um, mengun sem mæld var árið 2007 en stjórnvöld hafa vitað um a.m.k. frá 2008. Íbúar staðanna þar sem díoxínmengun hefur mælst tugföld, jafnvel allt að því hundraðföld, umfram viðurkennd viðmiðunarmörk, fengu fyrst að vita hvers kyns var nú fyrir nokkrum vikum.

Í Skutulsfirði uppgötvaðist mengun í mjólk frá bændum í Engidal. Það var ekki hið opinbera eftirlitskerfi; heilbrigðiseftirlit, Matvælastofnun eða Vinnumálastofnun, sem uppgötvaði mengunina heldur gæðaeftirlit Mjólkursamsölunnar. Sú staðreynd vakti strax upp spurningar um hvernig hinu opinbera eftirlitskerfi væri háttað. Eftir að upp komst hefur fleira komið í ljós, í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og í Svínadal í Öræfum. Díoxínmengun hefur mælst tugfalt yfir mörkum, allt að því hundraðfalt á Kirkjubæjarklaustri og sú sorpbrennsla stendur á skólalóð.

Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Til hvaða ráða hyggst hún grípa til að tryggja utanumhald þessa máls því að að því koma margar stjórnsýslustofnanir og ýmis stjórnsýslustig? Greinargerð sem ég vann nýlega fyrir hv. umhverfisnefnd um löggjöfina í þessu máli og lagaumhverfið sýnir fram á að þarna hefur margt brugðist. Það virðist sem hægri höndin viti lítið hvað sú vinstri gjörir í stjórnsýslunni (Forseti hringir.) og af því er ástæða til að hafa áhyggjur. Því spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Hver verða næstu skref í málinu?