139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

endurreisn bankakerfisins.

[11:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra ætla ég að fá að þakka hæstv. iðnaðarráðherra, sem setið hefur alveg kyrr í þessum fyrirspurnatíma, fyrir jákvæðu fréttirnar sem berast nú að morgni dags. Það er ánægjulegt að heyra að ætlunin sé að auka fiskeldi á Íslandi.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra sem ekki hefur fengið minna jákvæðar fyrirspurnir varðandi það sem ríkisstjórnin hefur verið einna stoltust af en það er endurreisn bankakerfisins. Í skýrslu Bankasýslunnar um framtíðarhorfur bankakerfisins kom fram að það væri mjög mikil óvissa og hún fælist fyrst og fremst í þremur þáttum: Viðskiptaumhverfi bankanna væri almennt mjög erfitt, enda mætti segja að bæði fyrirtæki og heimili væru mjög skuldsett á Íslandi og rekstrarumhverfi erfitt. Mikil óvissa væri varðandi lögmæti gengistryggingar, það varðaði þá bæði fyrirtækin og heimilin þó að komin væri vissa varðandi lögmæti gengistryggingar lána til heimilanna, og að áform stjórnvalda varðandi fyrningu kvótans eða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu yllu mikilli óvissu fyrir bankakerfið.

Dómur féll nýlega í Hæstarétti — það eru alltaf að koma nýir dómar frá Hæstarétti — þar sem það virðist staðfest að gengistrygging sé ólögmæt, sama hvert veðið var eða hvort um var að ræða einstaklinga eða lögaðila. Þar erum við hugsanlega að tala um kostnað bankakerfisins upp á 50–60 milljarða samkvæmt varlega áætluðum tölum frá FME.

Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir áhrifunum af nýjum reglum FME um mat á þeim eignum sem eru undirliggjandi eigin fé bankanna? Þar hafa menn talað um að hugsanlega þyrftu eigendur að koma með nýtt fé upp á fleiri hundruð milljarða. Þar vísa ég til gerða MP banka. Hafa stjórnvöld gert sér grein fyrir hver fjárhagsleg áhrif fyrningarleiðarinnar á eigið fé bankanna verða?