139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

endurreisn bankakerfisins.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rekur nokkra óvissuþætti sem hún telur að séu varðandi stöðu bankanna og það er vissulega ýmislegt til í því sem hún nefnir. Það er óvissa um nokkra þætti en ég held að sá gengislánadómur sem féll núna falli ágætlega að því uppgjöri sem lagt var til grundvallar í frumvarpi efnahagsráðherra að því er varðar gengislán einstaklinga. Það hefur alltaf legið fyrir að skýra þyrfti að málið varðandi lögaðilana. Það var alltaf ljóst að einhver lán væru ólögleg eins og hjá einstaklingum varðandi lögaðilana.

Að því er varðar einstaklinga er búið að reikna tapið sem varð með gengislánunum inn í stöðu bankanna og að einhverju leyti varðandi lögaðila en ekki er reiknað með að öll lán lögaðila séu ólögleg. Þar er ákveðin óvissa en það skiptir þó miklu máli að búið sé að reikna með tapið að því er varðar einstaklingana.

Varðandi spurninguna um FME og hvað er undirliggjandi varðandi eigið fé er verið að skoða það á vegum FME og efnahagsráðuneytisins og ég hef ekki upplýsingar um það. Það er nokkuð sem ég skal skoða og kynna mér og er full ástæða til að halda því til haga eins og hv. þingmaður gerir.

Varðandi fyrningarleiðina og kvótann, hvaða áhrif það hefur, liggur ekki nákvæmlega fyrir hvaða leið verður farin en auðvitað hljótum við alltaf, hver sem niðurstaðan verður, að horfa til skuldastöðunnar í sjávarútveginum. Við hljótum öll að hafa það að markmiði að þær leiðir sem farnar verða í því efni þýði ekki neina (Forseti hringir.) kollsteypu fyrir sjávarútveginn en það er ástæða til að skoða það. Auðvitað höfum við áhyggjur af því hvað veðsetning á kvóta í bönkunum sem fylgir skipum (Forseti hringir.) þýðir og þarf að skoða það líka eins og hv. þingmaður nefnir.