139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

endurreisn bankakerfisins.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði skipta öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi verulegu máli fyrir stöðu bankans. Það er óvissa og það hefur verið óvissa en staðan er samt sem áður sú að við erum smátt og smátt að reyna að eyða allri þeirri óvissu þó að aldrei sé hægt að eyða henni fullkomlega að því er varðar eigið fé, áhættu o.s.frv. vegna þess að bankarekstur er áhættusamur. En það er hægt að fylgjast vel með þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi og það á að gera. Í framhaldi af því skal ég sannarlega fara ofan í það sem hv. þingmaður nefndi varðandi FME og eiginfjárstöðu bankanna. Við höfum reyndar gert það í ráðherranefnd um efnahagsmál. Hún hittist vikulega og fer reglulega yfir stöðu bankanna, eiginfjárstöðu og fleira, og þetta mál skal ég taka sérstaklega upp á þeim vettvangi.

Varðandi fyrningu kvóta, (Forseti hringir.) um veðstöðu o.s.frv. vísa ég til þess sem ég sagði áðan. Auðvitað verður að hafa það í huga þegar menn komast að niðurstöðu í því efni.