139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég er fylgjandi tilraunastarfsemi í skólarekstri. Ég vil fjölbreytt námsúrræði, ég vil alls konar skóla því að ég vil ekki steypa alla í sama mót. Fólk er alls konar og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum.

Ég fagna líka einkaframtakinu á sviði mennta- og uppeldisstofnana og ég held að það sé að mörgu leyti kjörinn og frjór vettvangur til nýsköpunar og ýmissar tilraunastarfsemi. Það nægir að nefna menntastofnanir eins og Verzlunarskóla Íslands og leik- og grunnskóla Hjallastefnunnar því til sönnunar. Einkaskólar eiga að mínu mati að vera valkvæðir, þ.e. þeir sem senda börnin sín í slíka skóla gera það vegna þess að þar er eitthvað í boði sem býðst ekki í opinberum skólum. Skólarnir standa undir sér vegna þess að það er eftirspurn eftir því sem þeir bjóða upp á. Þannig á það að vera.

Mikil ánægja hefur t.d. verið með einkarekna leikskóla Hjallastefnunnar þar sem þeir eru valkvæður kostur til hliðar við opinbera kerfið og foreldrarnir sjálfir velja að senda börnin sín í skólana þar sem unnið er eftir Hjallastefnunni. En í skólum þar sem unnið er eftir Hjallastefnunni í opinberum hverfisleikskólum hefur ánægjan verið minni vegna þess að þessi sérstaka stefna er ekki endilega val fólksins sem býr í hverfinu, samræmist ekki lífsviðhorfi þess og er ekki endilega það sem það mundi velja fyrst. Ég er sem sagt hvorki á móti einkaskólum né tilraunastarfsemi í menntastofnunum og valdi reyndar sjálf að stunda nám í einkaskóla á einu tímabili í lífi mínu.

Mér finnst nauðsynlegt að taka þetta fram í upphafi máls míns þar sem mér hafa borist bréf frá skólastjóra Hraðbrautar og einnig séð haft eftir honum í fjölmiðlum að um pólitískar ofsóknir á hendur honum og einkaframkvæmda almennt í menntakerfinu sé að ræða. Svo er ekki og treysti ég mér til að fullyrða það, þótt ég sé enginn sérstakur talsmaður ríkisstjórnarinnar eða stefnu hennar. Ég stend hins vegar að áliti meiri hluta menntamálanefndar vegna þess að hér er pottur brotinn. Hér erum við að tala um meðferð á opinberu fé og það er ekki sama hvernig við umgöngumst það. Það námsúrræði sem Menntaskólinn Hraðbraut stendur fyrir er allrar athygli vert og ég vona að einhvers konar hraðbraut bjóðist áfram svo duglegir nemendur geti lokið stúdentsprófi á tveimur árum. Sá skóli mætti mín vegna vera rekinn sem einkaskóli en mér finnst menntamálaráðuneytið ekki geta réttlætt það að semja við sömu aðila aftur.

Framkvæmd og eftirlit menntamálaráðuneytisins og þeirra menntamálaráðherra sem þar sátu á þessum tíma er svartur blettur á íslenskri stjórnsýslu. Fátt virðist hafa verið í lagi og virðist ráðuneytið gjörsamlega hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu. Meira að segja grundvallaratriði eins og við hvern er samið og hverjum er greitt er ekki í lagi. Upphaflegur þjónustusamningur er gerður við einstaklingsfyrirtækið Hraðbraut árið 2001, sem er með kennitölu frá árinu 2000, en allar greiðslur frá ríkissjóði hafa borist til allt annars aðila, einkahlutafélagsins Hraðbrautar sem er með allt aðra kennitölu. Hvernig getur það gerst að ríkið semji við eitt fyrirtæki um þjónustu en greiði einhverju allt öðru fyrirtæki fyrir þjónustuna? Þetta skil ég ekki.

Mikið hefur verið rætt um arðgreiðslur til eigenda Hraðbrautar og menn hafa reyndar líka deilt um krónutöluna. Það munar ekki svo miklu þar á að ég vilji gera það að sérstöku umfjöllunarefni, en í athugun menntamálanefndar kom einnig í ljós að umtalsverðar arðgreiðslur hafi farið til eigenda í gegnum fyrirtækið Faxafen ehf. sem leigði skólanum húsnæði. Kostnaðarhlutföll í skólanum eru mjög sérstök í samanburði við aðra skóla, launakostnaður er mjög lágur en annar kostnaður, þar á meðal húsaleiga, er mjög hár miðað við aðra skóla. Ég get ekki betur séð en að eigendur skólans hafi mjólkað hann eins og hægt var og arðgreiðslurnar í heild eru verulegar, það er staðreynd.

Ríkisendurskoðun bendir á að ef rétt hefði verið gefið hefði skólinn ekki átt að geta greitt sér arð, hann stóð einfaldlega ekki undir sér. Því er ég ekki sammála því að Ríkisendurskoðun tekur ekki tillit til hárrar húsaleigu og arðgreiðslna út úr félaginu Faxafeni ehf. Á móti má benda á að kennarar hafa ekki fengið greitt í samræmi við vinnuframlag ef við berum samninga þeirra saman við aðra samninga kennara og því er í raun erfitt að leggja mat á hvort raunverulegur rekstrargrundvöllur sé fyrir rekstri skólans eða ekki. Ég tel þó svo vera.

Formaður menntamálanefndar fór ágætlega yfir þau atriði sem meiri hluta nefndarinnar þótti rétt að fjalla um og ég ætla ekki að endurtaka þau. Lykilatriði og hinn stóri lærdómur sem við verðum að draga af þessu máli er að svona má aldrei fara með opinbert fé. Við verðum að tryggja að eftirlit sé í lagi og öllum formsatriðum fylgt.

Forseti. Efst í huga mér eftir þessa yfirferð og eftir allt þetta undarlega mál er sú hugmynd að stofna skóla til þess að græða peninga. Kannski er ég gamaldags en mér finnst að skólar eigi að vera reknir af hugsjón. Þar með er ekki sagt að ekki megi greiða kennurum eða skólastjórnendum góð laun. Mér finnst t.d. laun kennara allt of lág. Hér virðist hins vegar allt skólastarfið snúast um að gera fyrirtækið að peningavél á kostnað kennara, nemenda og skattgreiðenda. Þá hljótum við að spyrja okkur hvernig við getum komið í veg fyrir að svona endurtaki sig. Ég held að lausnin sé að mörgu leyti fólgin í félagaforminu. Það er ekki eina lausnin, það er alveg ljóst að opinberir aðilar verða að standa sig miklu betur í eftirlitshlutverkinu. Það er raunveruleiki sem við erum að vakna við núna eftir hrunið að eftirlitsaðilar almennt í samfélaginu hafa brugðist.

Ég held að einkahlutafélagsformið sé ekki heppilegt í skólarekstri. Við sjáum áratugagamlar stofnanir eins og Verslunarskóla Íslands sem eru reknar sem sjálfseignarstofnanir og arðurinn af starfseminni fer í að bæta skólastarfið og aðbúnað kennara og nemenda en ekki til þess að halda uppi lúxuslífi eigenda með arðgreiðslum eða veita lán til tengdra aðila. Það er vel hægt að reka einkaskóla hér á landi svo vel sé en það verður að hafa eftirlit með því hvernig opinbert fé er notað og grípa til aðgerða þegar augljóslega er farið frjálslega með það.

Það á auðvitað við um opinbera skóla líka, þeir eru ekkert undanþegnir eftirlitsskyldunni. Nýlegt dæmi er um fangelsi þar sem forsvarsmaður þess virðist hafa farið mjög frjálslega með fé fangelsisins.

Að lokum vil ég taka fram að ég vona að úrræði á borð við Hraðbraut verði enn í boði en tel þó að fullreynt sé að semja við núverandi eigendur Hraðbrautar sem rekstraraðila.