139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mun í ræðu minni fara yfir áliti meiri hluta fjárlaganefndar á greinargerð Ríkisendurskoðunar um Menntaskólann Hraðbraut.

Með bréfi sem dagsett er 2. október sl. óskaði menntamálanefnd Alþingis eftir að fjárlaganefnd gæfi umsögn um greinargerð Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut. Fjárlaganefnd fjallaði um skýrsluna og fékk til fundar við sig gesti frá Ríkisendurskoðun, menntamálaráðuneyti og skólastjóra menntaskólans.

Í greinargerð Ríkisendurskoðunar er það gagnrýnt að engin þarfagreining hafi verið gerð áður en til skólans var stofnað og heldur ekki gerð tilraun til að kanna hvort hagkvæmt væri að bjóða upp á sambærilegt nám og til stóð að veita í skólanum innan einhvers af þeim framhaldsskólum sem þá voru starfandi. Einnig var samið um reksturinn við Hraðbraut ehf. án þess að öðrum gæfist kostur á að bjóða í verkefnið eða hafa aðkomu að því að öðru leyti.

Samkvæmt 5. gr. þjónustusamningsins við Hraðbraut skal uppgjör fara fram árlega, þar sem áætlun um nemendafjölda og framlög er borin saman við rauntölur. Slíkt uppgjör hefur hins vegar aldrei farið fram. Áætlanir áranna 2003–2009 gerðu ráð fyrir 1.818 nemendaígildum við skólann. Raunin varð hins vegar 1.422 eða 396 færri nemendaígildi. Greiðslur til skólans voru ætíð í samræmi við áætlanir um nemendafjölda en aldrei samkvæmt rauntölum á því tímabili og námu því samtals 936 millj. kr. í stað 744 millj. kr. eins og hefði átt að vera. Ofgreidd framlög til skólans nema því samtals 192 millj. kr. Ríkisendurskoðun gagnrýnir menntamálaráðuneytið fyrir að framfylgja ekki skýru ákvæði 5. gr. þjónustusamningsins um árlegt uppgjör. Þá telur stofnunin að ráðuneytið hafi ekki heimild til að gefa eftir skuld skólans við ríkissjóð upp á samtals 126 millj. kr. vegna ofgreiddra framlaga á árunum 2004–2006 eins og gert er með nýjum þjónustusamningi árið 2007, með undirskrift menntamálaráðherra og fjármálaráðherra. Sá samningur hafi auk þess verið gerður án þess að endurskoðaðir ársreikningar lægju fyrir, en samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa ársreikningar skólans ekki verið endurskoðaðir.

Ríkisendurskoðun telur ekkert í þjónustusamningnum eða lögum og fyrirmælum almennt banna arðgreiðslur út úr rekstri skólans, eins og fram hefur komið, svo fremi að rekstur hans sé í jafnvægi og arðgreiðslan dragi ekki úr möguleikum skólans til að veita umsamda þjónustu. Hins vegar bendir stofnunin á að framlög ríkisins til skólans á tímabilinu 2003–2009 hafi verið 192 millj. kr. umfram ákvæði þjónustusamningsins. Skólinn hafi því í raun ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða þennan arð. Samkvæmt ársreikningi skólans fyrir árið 2009 námu lán til tengdra aðila samtals 50 millj. kr. í árslok. Lánið var upphaflega veitt Nýsi ehf. til að fjármagna byggingu skóla í Skotlandi. Á árinu 2009 var lánið yfirtekið af fyrirtækinu Gagni ehf. en það er í eigu skólastjóra Hraðbrautar. Ríkisendurskoðun telur að þótt fullnægjandi grein sé gerð fyrir láninu í bókhaldi skólans geti þessi lánastarfsemi ekki talist æskileg og sé í andstöðu við ákvæði samningsins, enda tengist hún ekki rekstri skólans með nokkrum hætti.

Í ljósi þess sem að framan greinir telur Ríkisendurskoðun að fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri skólans séu afar hæpnar að óbreyttum aðstæðum. Skuld skólans við ríkissjóð vegna ofgreiddra framlaga nemur 192 millj. kr. Skólinn var rekinn með nokkrum halla eina árið sem sæmilegt samræmi var milli framlaga úr ríkissjóði og nemendafjölda og loks ríkir veruleg óvissa um getu Gagns ehf. til að endurgreiða 50 millj. kr. lán frá skólanum. Í greinargerðinni kemur fram að þjónustusamningur við Menntaskólann Hraðbraut beri það með sér að langt var gengið í að mæta því sjónarmiði sem hefur verið ríkjandi, að einkaskólar með þjónustusamning skuli njóta sambærilegrar fyrirgreiðslu og opinberir skólar. Þannig var horft til þess fyrstu rekstrarár Hraðbrautar að um nýjan skóla var að ræða og að taka mætti tillit til rekstrarerfiðleika í byrjun. Með hliðsjón af framangreindu var, við framkvæmd samningsins, litið svo á að nemendauppgjör mætti jafna út á lengri tíma og gefa skólanum þannig svigrúm til að komast yfir erfið upphafsár. Þegar leið að lokum fyrsta samningstímabilsins var ljóst að erfiðlega gekk að ná markmiðum samningsins um umfang þjónustu og skýringar og röksemdir um byrjunarörðugleika héldu ekki lengur. Skýrsla Ríkisendurskoðunar gefur til kynna að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar frá skólanum og því virðist sem menntamálaráðuneytið hafi ekki sama aðgang að fjárhagsbókhaldi og í þeim tilfellum sem um opinberan skóla sé að ræða.

Það er álit meiri hluta fjárlaganefndar að Ríkisendurskoðun eigi að nýta sér í auknum mæli heimild til að kalla eftir upplýsingum úr fjárhagsbókhaldi einkarekinna stofnana eins og Menntaskólans Hraðbrautar. Ef einkaskólar og opinberir skólar eiga að njóta sömu fyrirgreiðslu verður aðgangur að upplýsingum um rekstur þeirra að vera sambærilegur. Jafnframt er það álit meiri hlutans að Ríkisendurskoðun framkvæmi stjórnsýsluendurskoðun á samningum er varði aðra en ríkisaðila sem fá veruleg fjárframlög úr ríkissjóði. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar um að ekki séu heimildir í lögum til ráðherra til að gefa eftir skuldir með þeim hætti sem gert var með þjónustusamningi 2007 við Menntaskólann Hraðbraut. Meiri hlutinn telur einnig að aðgerðin sé ekki sambærileg við framkvæmd er snýr að opinberum skólum í svipaðri stöðu. Þá telur meiri hluti fjárlaganefndar að ekki hafi verið forsendur fyrir gerð nýs þjónustusamnings með óbreyttu umfangi við skólann árið 2007 þar sem endurskoðaðir ársreikningar lágu ekki fyrir og þar með voru ekki allar nauðsynlegar upplýsingar til staðar til að styðja áframhaldandi samstarf með fjárframlögum úr ríkissjóði. Einnig lágu þá fyrir upplýsingar um að nemendafjöldi væri langt undir því sem áætlað hafði verið án þess að greiðslur til skólans hefðu verið lagaðar að því. Meiri hluti fjárlaganefndar telur ljóst af greinargerð Ríkisendurskoðunar að menntamálaráðuneytið hafi ekki uppfyllt að fullu eftirlitsskyldu sína hvað varðar eftirlit með rekstri Menntaskólans Hraðbrautar.

Meiri hluti fjárlaganefndar lagði í áliti sínu áherslu á að skuld skólans við ríkissjóð verði greidd og að ákvörðun um aðkomu ríkisins að skólanum verði tekin út frá faglegum forsendum með hagsmuni nemenda og ríkissjóðs í forgrunni.

Undir álit meiri hluta fjárlaganefndar rituðu auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Ásbjörn Óttarsson, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Kristján Þór Júlíusson, Ólafur Þór Gunnarsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Hv. þingmenn Þór Saari og Höskuldur Þórhallsson skiluðu minnihlutaálitum.