139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:12]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur alvarlega upp á hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum, að hún standi sig í því að verja íslenskan metnað og íslenska viðmiðun. Þó að sumir hv. Evrópusambandsþingmenn á Alþingi Íslendinga hlægi að þessu er þetta alvara málsins. Það er miklu heitara í hjartastað en marga grunar. Það mun verja Ísland vegna þess að þorri fólks á landinu hefur hjörtu sem slá fyrir sjálfstæði Íslands hvað sem menn bjóða í það á fallvöltu gengi utan lands.

Hvert einasta orð sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur sagt hér er rétt. Það er raunhæft, það er sanngjarnt, kannski fullkurteisislegt, en 100% rétt. Það er verið að dengja á okkur mútum og við eigum ekki að leyfa mútur á Íslandi, hvorki innan lands né utan.

Hvað mundum við segja, hv. þingmenn, ef stórveldið Kína ákvæði að setja 100 milljarða í að auglýsa hvað það væri spennandi fyrir Ísland að vera hluti af Kína? Mundum við taka því vel? Líklega ekki. Þetta er nákvæmlega sama málið. Það er verið að misnota það sem heitir lýðræðisleg hefð, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, fyrir því að jafnræði ríkti í samningum milli manna og þjóða, jafnræði en ekki yfirboð og gylliboð um Brussel-kæfubelginn og strápilsin sem fylgja partíunum þar.