139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

viðbragðsáætlun við fjármálaóstöðugleika.

[14:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var svo vinsamlegur að gauka að mér upplýsingum. Raunar er stærstur hluti þess sem hv. þingmaður spyr um á verksviði efnahags- og viðskiptaráðherra þó að sá misskilningur hafi svolítið verið á floti að fjármálaráðherra sé jafnframt bankamálaráðherra af því að það öfundsverða hlutskipti hefur verið dálítið á mínum herðum að endurreisa banka og leggja þeim til fé og semja um uppgjör á milli gamalla og nýrra banka. En ég fer ekki með bankamál, viðbragðsmál af þessu tagi heyra að sjálfsögðu undir bankamálaráðherra, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þar er upplýst að þeirri vinnu miði þannig áfram að reikna megi með að í mars eða apríl komi fram mótuð áætlun sem hægt verði að kynna og það eru að sjálfsögðu góðar fréttir.

Það er þar með staðfest, sem ég vissi auðvitað af af því að við erum að sjálfsögðu þátttakendur í þeirri vinnu, að henni miðar vel áfram og verið er að vinna að þessu hörðum höndum ásamt ýmsu fleiru því að það er í mörg horn að líta á búinu.