139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

aðildarumsókn að ESB og Icesave.

[14:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Afstaða mín til þjóðaratkvæðagreiðslna hefur alltaf verið skýr. Frá upphafi þingvistar minnar hef ég fylgt þeim (Gripið fram í: Ekki síðustu árin.) en ég hef alltaf haft á því einn fyrirvara. Það var sami fyrirvari og kom alltaf fram hjá þeim parti Sjálfstæðisflokksins sem fylgdi þjóðaratkvæðagreiðslum, sem laut að því að um ríkisfjármál og skyld málefni skyldi ekki vera greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum, svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Að því er varðar afstöðu mína til 26. gr. hefur mér lærst það með árunum að láta ekki æsing líðandi stundar hafa of mikil áhrif á mig þannig að eins og ég sagði áðan mun koma í ljós hvernig afstaða utanríkisráðherrans þróast í því máli. En ég hef líka sagt í svari til hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur, að ég hygg, um sama málefni fyrir alllöngu síðan (Forseti hringir.) að ég teldi að ef stór hluti þjóðarinnar eða tiltekinn hluti hennar gæti krafist atkvæðagreiðslu um slík mál og eins ef minni hluti þingmanna gæti gert það (Forseti hringir.) væri það ígildi málskotsréttar.