139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að margir mér miklu færari einstaklingar geti sagt eitthvað af viti um þetta mál. Ég hef hins vegar látið sannfærast um að rétt sé að færa aldurinn upp af tveimur ástæðum. Sú fyrri er sú sem hv. þingmaður nefndi, að rannsóknir sýna að slysum fækkar, að við hlífum hinum unga ökumanni, verjum hann og verndum gagnvart sjálfum sér og þar með aðra í umferðinni. En síðan er það hitt að ákveðin samræming á sér þarna stað. Við 18 ára aldur verður einstaklingurinn lögráða og sjálfstæður sem slíkur. Hann er ekki háður fjárhag foreldra sinna eða aðstandenda í lögformlegum skilningi, það er annar þátturinn.

Það eru ekki bara öryggissjónarmiðin sem þessu valda heldur eru menn einnig að færa þessa hluti til ákveðinnar samræmingar.