139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

prestur á Þingvöllum.

282. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir orð hennar í þessu máli. Þetta er auðvitað spurning um að auka þessa starfsemi, það snýst um það. Ef það ætti til að mynda að brúa bilið sem hinn ágæti Þingvallaprestur vor, séra Kristján Valur Ingólfsson, sinnir gæti verið mjög skemmtilegt að reyna að virkja sóknir á landsbyggðinni.

Þorri höfuðborgarbúa er fólk sem kemur af landsbyggðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef prestar frá sóknum, hvort sem eru vestan, norðan, sunnan eða austan lands, koma í Þingvallakirkju einhvern ákveðinn dag mundu mæta kirkjugestir af höfuðborgarsvæðinu sem tengjast þessum byggðum. Það er bara partur af því að nýta aðstöðuna og stemninguna, nýta það sem getur gefið okkur gott og gert fólki gott. Þetta eru ekki afskipti af stjórn kirkjunnar varðandi Þingvallakirkju heldur einfaldlega vinsamleg ábending og ósk um að leggja meira í en hægt hefur verið.