139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

verðhækkanir í landbúnaði.

[11:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svörin. Ég held að okkur greini ekkert á um matið á stöðunni. Það mat er líka alveg augljóst, þessa dagana hellast yfir landbúnaðinn gríðarlega miklar kostnaðarhækkanir og þá blasir annaðhvort við að hækka vöruverð, ef það er hægt, eða þá að bændur þurfa að taka á sig skerðingarnar. Þannig er það einfaldlega.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom mér samt sem áður dálítið á óvart. Ég hafði búist við því að hann hefði miklu skýrari svör við þessu. Ég minnist þess að áður fyrr hafði hæstv. ráðherra oft mjög skýrar áherslur þegar kom að þessum málum. Hann hafði ráð undir rifi hverju. Nú er svarið eingöngu það að hann ætli að fylgjast með. Hann ætlar ekki að boða neinn beinan atbeina að málinu nema hann ætlar að fylgjast með því sem er að gerast á búnaðarþingi.

Ég verð að segja eins og er að það eru svör sem eru ákaflega rýr í roðinu og ekki mikið á þau að stóla. (Forseti hringir.) Við munum örugglega fylgjast vel með búnaðarþingi en ég held að við munum ekki síður vilja fylgjast með því hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggst bregðast við.