139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Ég er einn flutningsmanna frumvarpsins en 1. flutningsmaður er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og ber að þakka honum það frumkvæði sem hann hefur sýnt um að koma þessu máli á dagskrá.

Einnig vil ég vekja athygli á því að flutningsmenn frumvarpsins eru úr nánast öllum stjórnmálaflokkum og virðist því vera þverpólitísk samstaða um málið. Mikilvægt er líka að menn skoði aðflutningsgjöldin á þessum búnaði og, verði þetta samþykkt, að hæstv. fjármálaráðherra skoði þau sérstaklega samkvæmt reglugerðarheimild og felli þau niður. Mikilvægt er að það gerist.

Ástæðan fyrir því að frumvarpið er lagt fram er augljós. Hún felst í því að þetta er einn af þeim liðum sem gætu dregið úr því misræmi sem er á húshitunarkostnaði á svokölluðum köldum svæðum og svæðum þar sem hitaveita er. Þetta gæti leitt til þess að það yrði fýsilegri kostur fyrir fólk sem býr á köldum svæðum að nota varmadælur en stofnkostnaðurinn við þær hefur verið mjög mikill. Að okkar mati er mjög óeðlilegt að á þeim sé sérstakur virðisaukaskattur upp á 25,5% plús aðflutningsgjöld því það dregur mjög úr hagkvæmninni og dregur úr því að fólk skoði þennan kost alvarlega.

Það er líka mjög mikilvægt að ræða þetta út frá því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og fylgigögnum, að staðan er þannig núna að húshitunarkostnaður á köldum svæðum á landsbyggðinni er mjög sligandi og raskar mjög búsetuskilyrðum. Í greinargerðinni kemur til að mynda fram að það kostar 238 þús. kr. að kynda 180 fermetra hús á landsbyggðinni á sama tíma og það kostar 93 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er enginn smámunur og segir allt sem segja þarf. Það munar tæpum 150 þús. kr. Eftir að vinstri stjórnin tók við stjórn í landinu og hefur hækkað alla skatta og skattpínt … (Utanrrh.: Það eru nú hægri kratar í henni líka.) Hæstv. utanríkisráðherra segir að hægri kratar séu þar líka og kannski ber að þakka þeim að skattpíningin sé ekki enn frekari en hún er nú þegar og færi ég hæstv. utanríkisráðherra þakkir fyrir það. (Gripið fram í.) Ef við tökum þetta þannig — já, það eru fleiri góðir hægri kratar í Samfylkingunni, ég tek undir það með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur.

Í stuttu máli, ef það munar orðið 150 þús. kr. á ári, þýðir það 300 þús. kr. í tekjur, ekkert meira eða minna, bara þessi liður. Síðast en ekki síst hefur flutningskostnaður hækkað mjög mikið að undanförnu. Þessi svæði úti á landsbyggðinni eru að verða undir, hvort sem um er að ræða heimili eða fyrirtæki. Hér er eingöngu fjallað um heimilin en þetta gæti auðvitað nýst fyrirtækjum líka. Þar er kostnaðurinn ugglaust enn meiri vegna þess að það kostar mjög mikið að kynda stór fyrirtæki á landsbyggðinni með rafmagni. Og þá er bara eitt sem þau geta gert. Það kom mjög vel í ljós í kjördæmavikunni fyrir tveimur vikum að fólk hefur orðið mjög mikið vart við allar þessar hækkanir og hefur verulegar áhyggjur af því hvernig samkeppnisstaða fyrirtækja á landsbyggðinni hefur skekkst, bæði út af flutningskostnaði og raforkukostnaði. Þetta gerir það að verkum að fyrirtæki á landsbyggðinni sem keppa hugsanlega við fyrirtæki á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem búa við önnur skilyrði verða einfaldlega að greiða fólki sínu lægri laun, annað er ekki í boði, hvort sem það eru fyrirtæki í iðnaði eða öðru. Mjög mikilvægt er því að þetta verði skoðað.

Síðan er mikilvægt að menn átti sig á því, eins og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu, að raforkuverð á köldum svæðum, sérstaklega í dreifbýli þar sem færri en 200 manns búa, hefur hækkað um 72% á átta árum að raunvirði. En ef við tökum raforkuverð á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík til að mynda var það árið 2000 um 100 þús. kr. miðað við núvirði en er núna 93.400 kr. Það hefur því lækkað miðað við núvirði um 7% á sama tíma og það hefur hækkað um 72% í dreifbýli á köldum svæðum. Munurinn er orðinn í kringum 80%. Það segir sig alveg sjálft að þetta er ótrúlegt. Við munum eftir allri umræðunni á síðasta ári þegar Orkuveita Reykjavíkur varð að hækka gjöldin um 28% til þess að mæta kostnaði en þetta er samt niðurstaðan. Eftir þá hækkun og eftir þennan árafjölda sem ég rakti munar um 80%. Það munar um 150 þús. kr. á ári hvort kynt er á köldum svæðum eða á Reykjavíkursvæðinu. Á sama tíma hefur það gerst að þótt kílóvattstundirnar hafi hækkað og taxtarnir þá hafa niðurgreiðslur til húshitunar lækkað þannig að það leggst allt á eitt. Þetta er orðið mjög bagalegt.

Ég þekki dæmi um það úr heimabyggð minni að fullorðið fólk sem býr þar, og á kannski húsnæði sem er erfitt að selja eftir hrunið og allt er í óvissu eins og allir vita, fasteignamarkaðurinn er ekki mjög líflegur, er að lenda í fátæktargildrum bara vegna þess hvað þessi hlutir hafa hækkað mikið. Þetta eru staðreyndir sem blasa við. Ég hef séð reikninga hjá þessu fólki og þetta eru engar smáupphæðir, sérstaklega fyrir eldri borgara sem hafa úr litlu að moða, sérstaklega eftir að hæstv. ríkisstjórn ákvað á árinu 2009 að skerða kjör ellilífeyrisþega og öryrkja um 7 milljarða en reyndin varð hins vegar 11 milljarðar á árinu 2010. Í fjáraukalögum fyrir árið 2010 voru 4 milljarðar færðir til viðbótar inn á þessa liði vegna þess að skerðingarnar voru mun frekari en gert var ráð fyrir, auk allra þeirra tekjutenginga sem komnar eru þar inn. Það þyrfti sérstaka umræðu um þetta og ætti kannski ekki að blanda því hér inn. En það er hreint með eindæmum hvernig ríkisstjórnin hefur gengið gegn eldri borgurum og öryrkjum á þessum svæðum.

Síðast en ekki síst vil ég enda á því, virðulegi forseti, að segja að nú eru miklar umræður um auðlindagjöld. Menn segja að sjávarútvegurinn eigi að borga hærra auðlindagjald. Hann borgar nú þegar 3 milljarða í auðlindagjald. Sumum finnst það of lítið og að borga þurfi meira en þá spyr ég á móti: Eigum við ekki að taka auðlindaumræðuna á annað stig, eiga þá ekki allir að borga auðlindagjald sem hafa yfir auðlindum að ráða? Heita vatnið er klárlega gríðarlega mikil auðlind og mér finnst ekkert réttlæti í því að þeir sem búa í sjávarbyggðunum á köldum svæðum og kynda þar með rafmagni, borgi auðlindagjald fyrir að fara að vinna úti á sjó á sama tíma og þeir sem búa í Reykjavík og nota heita vatnið þurfa ekki að borga neitt til baka. Það er ekki sanngjarnt. Maður hefur stundum orðað þetta svo að það sé ekkert sem segi að fólkið sem býr á svæðum með heitu vatni eigi frekar að fá auðlindagjald hjá þeim sem búa í sjávarbyggðunum. Það hefur auðlindanýtinguna á heita vatninu sem gerir að verkum að miklu hagkvæmara er fyrir það að kynda hús sín og kostar miklu minna.

Að lokum, virðulegi forseti, segi ég þetta: Ég vænti þess að efnahags- og skattanefnd afgreiði þetta fljótt og vel og við getum þá sýnt eitthvað í verki. Búið er að tala nóg um þetta misræmi á milli íbúa sem búa á köldu svæðunum og þeirra sem búa á svæðum með heitu vatni, það eru nú ekki nema 10% af þjóðinni sem þurfa að búa við þessa ofurskattlagningu eða þennan ofurkostnað á hitun. Nú er kominn tími til að fara að framkvæma. Búið er að tala nóg. Ég vænti þess að hv. efnahags- og skattanefnd afgreiði málið fljótt og vel svo við getum komið því í verk að gera þetta að lögum.