139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lausn á vanda sparisjóðanna.

[15:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þingmaður geti sannreynt það. Vonandi verður það svo að málefni sparisjóðanna sem slíkra verða sett í ítarlega rannsókn og þótt fyrr hefði verið. Það er satt best að segja bagalegt hversu lengi það hefur dregist að koma þeirri rannsóknarvinnu af stað. Sömuleiðis verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir þeirri aðgerð að endurfjármagna og endurskipuleggja sparisjóðina rétt eins og verður gert með stóru bankana þrjá. Skýrslan um þann gerning og svipaða er að verða tilbúin og mun ég leggja hana fram á Alþingi þegar öll kurl verða komin til grafar varðandi aðgerðir á vettvangi sparisjóðanna. Auðvitað var staða þeirra eilítið mismunandi en í grófum dráttum var notuð sama aðferð alls staðar. Stofnféð var fært niður í nánast ekki neitt og auðvitað algerlega niður í þeim tilvikum þegar sparisjóðirnir fóru undir eins og kemur til með að eiga við um Sparisjóðinn í Keflavík. Í flestum tilvikum hefur niðurfærsla (Forseti hringir.) stofnfjár verið á bilinu 40% til 99,4% sem ég hygg að eigi við um þann ágæta sparisjóð sem hv. þingmaður var (Forseti hringir.) svo vinsamlegur að nefna í umræðunni.