139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa utandagskrárumræðu. Vonandi ná aðilar vinnumarkaðarins sem allra fyrst niðurstöðu í kjaramálin, við skulum svo sannarlega vona að það gangi vel og hratt fyrir sig þó að ýmsar blikur séu á lofti og kannski engin sérstök ástæða til bjartsýni nú sem stendur. Það sem snýr að okkur er aðkoma ríkisins og ég hef miklar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að heyra í hæstv. ráðherra sem virðist gera lítið úr sjávarútvegsmálunum, því að það að stjórnvöld hafi skapað óvissu í þessari undirstöðuatvinnugrein er ekki eitthvað sem menn geta tekið létt og látið líta út fyrir að sé smámál. Það hefur nefnilega áhrif á allt. Það hefur áhrif á atvinnustigið og stærsta ógnin á Íslandi í dag er atvinnuleysið. Það segir sig sjálft að meðan óvissa er í undirstöðuatvinnuveginum fjárfesta menn ekki þar og það kemur beint niður, ekki bara á sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur ekki síst á fyrirtækjunum sem þjónusta sjávarútveginn, hvort sem það er í hugbúnaði, málmiðnaði eða annars staðar.

Það liggur nefnilega fyrir að langtímaatvinnuleysi eykst og það sem hefur fyrst og fremst komið í veg fyrir atvinnu á Íslandi er hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur gert það með því að grípa inn í leikreglur sem a.m.k. hluti hennar samdi sjálf og það hefur fælt bæði innlenda og erlenda fjárfestingu úr landi. Hún hefur ekki forgangsraðað í ríkisfjármálum með þeim hætti að halda uppi atvinnustigi. Við sjáum þetta á hverjum degi, ekki bara í opinberum tölum heldur á því að fólk sem á og ætti að vera í vinnu við eðlilegar aðstæður en sérstaklega eins og staðan í þjóðfélaginu er núna fær ekki vinnu út af áherslum hæstv. ríkisstjórnar. (Forseti hringir.)

Ég hvet hæstv. ráðherra sem og aðra hv. þingmenn sem eru í stjórnarmeirihlutanum að sjá að sér. Það er mikið í húfi.